Alvarlegum mannréttindabrotum lýst í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli.

Alvarlegum mannréttindabrotum lýst í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli.

Hvað geta íslensk stjórnvöld af þessu lært?

Snemma árs 2008 sendu Landssamtökin Þroskahjálp forsætisráðherra bréf og óskuðu eftir að forsætisráðuneytið hlutaðist til um að fram færi opinber rannsókn á aðbúnaði fatlaðra barna á þar til gerðum stofnunum. Í bréfinu segir m.a.: „Óskað er eftir því að einkum verði skoðað hvort þau urðu fyrir hvers kyns ofbeldi á meðan á stofnanavistinni stóð og hvað það var í starfsemi stofnananna sem einkum stuðlaði að slæmu atlæti og ofbeldi.“ Samtökin ítrekuðu þessa beiðni sína, m.a. með bréfi sem þau sendu í september 2009.

Um mitt ár 2012 brást forsætisráðherra við þessu erindi Þroskahjálpar með því að endurskipa vistheimilanefnd „með það fyrir augum að taka til sérstakrar rannsóknar vistun og aðbúnað barna með fötlun á opinberum stofnunum“, eins og segir í frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins.

Vistheimilanefnd hefur nú skilað ítarlegri skýrslu um könnun á vistun barna á Kópavogshæli 1952-1993. Hér að neðan má nálgast skýrsluna alla og helstu niðurstöður, ályktanir og tillögur nefndarinnar.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það að skýrslan leiðir í ljós, svo að ekki verður um villst, að hlutaðeigandi stjórnvöld brutu mjög alvarlega gegn skyldum sínum til að veita fötluðum börnum sem voru vistuð á Kópavogshæli þann stuðning, aðbúnað og vernd sem þeim bar að veita samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Augljóst var og er að fötluð börn eru mjög berskjölduð fyrir mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi og þurfa því og eiga rétt á að stjórnvöld gæti þess sérstaklega að veita þeim þann stuðning, aðbúnað og vernd og að virkt og gott eftirlit sé haft með að þau njóti þess. Þessi mannréttindi fatlaðra barna hafa verið sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja og hafa auk þess tekið í íslensk lög og í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld fullgiltu loks sl. haust og skuldbundu sig þar með til að virða og framfylgja. Mikil þörf er á að sá samningur verði tekinn í íslensk lög eins og Barnasáttmálinn. Skýrsla vistheimilanefndar um Kópavogshælið er mjög skýr og augljós staðfesting á því.

Landssamtökin Þroskahjálp skora á íslensk stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að reyna að bæta þeim sem enn lifa og dvöldust sem börn á Kópavogshæli þau mannréttindabrot og þann skaða sem þeir urðu fyrir vegna dvalar sinnar þar. Einn liðurinn í því er að greiða þeim sanngirnisbætur. Þar hvílir sú mikilvæga skylda á stjórnvöldum að veita þeim mikla og góða aðstoð til að sækja þann rétt sinn „meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess“ fólks sem í hlut á, eins og mælt er fyrir um í samningi i SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Þá verða íslensk stjórnvöld að draga þann lærdóm af þessari skýrslu að nægilegur stuðningur við fjölskyldur fatlaðra barna er forsenda þess að börnin fái notið þeirra sjállfsögðu mannréttinda að njóta fjölskyldulífs og eiga heimili eins og annað fólk. Skortur á þessum stuðningi var augljóslega ein meginástæða þess að svo mörg börn voru vistuð á Kópavogshæli. Börnin og foreldrar þeirra fengu ekki þann stuðning sem þau þurftu nauðsynlega á að halda til að börnin gætu dvalist og alist upp með foreldrum sínum og systkinum á heimilum sínum og því neyddust foreldrar þeirra til að láta börnin fara á Kópavogshælið, eins og „kerfið“ hvatti þá einnig til að gera.

Íslensk stjórnvöld hljóta einnig að draga þann lærdóm af þessari skýrslu að þau verða að vinna mjög markvisst gegn „stofnanavæðingu“ í allri þjónustu við fatlað fólk og að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fatlað fólk fái þjónustu og stuðning þar sem það vill búa og þar sem það getur lifað eðlilegu og sjálfstæðu lífi eins og annað fólk. Þau mannréttindi eru grundvallarþáttur í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Þá verða íslensk stjórnvöld, í ljósi þess sem fram kemur í skýrslunni, að fara gaumgæfilega yfir hvernig þau standa nú að eftirliti með að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda, verndar og þjónustu sem það á rétt á og gera nauðsynlegar breytingar á lögum, reglum og framkvæmd til að tryggt verði að það eftirlit virki örugglega  eins vel og það verður að gera í ljósi þess hversu mikilvæg mannréttindi, hagsmunir, tækifæri og lífsgæði eru í húfi.

Íslensk stjórnvöld verða einnig að tryggja að fjárveitingar til þjónustu við fatlað fólk séu í samræmi við þarfir þess og þau réttindi sem mælt er fyrir um i lögum og reglum  sem íslensk stjórnvöld hafa sett og eru áréttuð í mannréttindasamningum sem þau hafa undirgengist. Skýrsla vistheimilanefndar er augljós áminning um þetta og það er enn mikill misbrestur á að efndir fylgi orðum stjórnvalda hvað varðar réttindi og þjónustu við fatlað fólk. Úr því verður að bæta.

Og síðast en ekki síst. Íslensk stjórnvöld verða að sýna að þau skilji og vilji að mannréttindi eiga að vera fyrir alla. Þannig og aðeins þannig sýna þau því fólki sem dvaldist í umsjá þeirra á Kópavogshæli þá virðingu og viðurkenningu sem það á tilkall til.

          
Skýrsla vistheimilanefndar   Beiðni Þroskahjálpar frá 2008

 

Helstu niðurstöður, ályktanir og tillögur vistheimilanefndar

 

 

Senda póst til Þroskahjálpar