Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (hvítbók)
12. apríl 2023
Sveitarfélög gegna mjög mikilvægu hlutverki samkvæmt lögum við að veita fötluðu fólki þjónustu, sem er mjög oft algjör forsenda þess að það hafi raunhæf tækifæri til að njóta margvíslegra mannréttinda sem eru sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja hér á landi. Sú skuldbinding nær skýrt og skilyrðislaust til sveitarfélaga. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og þá er hafin sérstök landsáætlun um innleiðingu hans. Þátttaka og afstaða sveitarfélaga ræður mjög miklu um hvernig til tekst í því afar mikilvæga verkefni.
Í 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, segir:
Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Framkvæmd þessara tveggja laga er fyrst og fremst á verksviði og ábyrgð sveitarfélaga. Þá eru grunnskólar og leikskólar reknir af sveitarfélögunum en þeir gegna lykilhlutverki hvað varðar tækifæri fatlaðra barna til menntunar og félagslegrar þátttöku, án mismununar og aðgreiningar, eins og mælt er fyr um í lögum og er meginþáttur í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Stefnumótun af því tagi sem hér er til umfjöllunar er mjög mikilvægur þáttur í að innleiða samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar, segir að aðildarríki samningsins skuldbindi sig til „að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð.”
Samtökin hvetja því innviðaráðuneytið eindregið til að fara sérstaklega yfir þessa stefnu í málefnum sveitarfélaga með tilliti til þess að tryggja að hún taki örugglega með fullnægjandi hætti mið af þeim skyldum sem hvíla á ríki og sveitarfélögum hvað varðar mannréttindi fatlaðs fólks, sem sérstaklega eru áréttuð í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Samtökin lýsa áhuga og vilja til samráðs við ráðuneytið við það verkefni og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings, þar sem segir:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Þroskahjálp vill einnig árétta þær miklu efasemdir sem samtökin hafa ítrekað og með skýrum hætti komið á framfæri við hlutaðeigandi ráðuneyti og Alþingi um að rétt hafi verið falla frá kröfu í lögum um lágmarksfjölda fólks á hverju þjónustusvæði fyrir fatlað fólk, eins og gert var með lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í þessu sambandi benda samtökin á að mjög vandséð er að fámenn sveitarfélög hafi burði og aðstæður til að bjóða upp á margbreytilega og stundum mjög sérhæfða þjónustu, sem þeim ber að gera samkvæmt lögunum. Þá er fullt tilefni til að hafa af því áhyggjur að það sé erfitt fyrir fámenn sveitarfélög að hafa starfsfólk í þjónustu sinni sem býr yfir fullnægjandi og sérhæfðri menntun og þekkingu sem nauðsynleg er og krafa er gerð um í lögum og reglum varðandi mannréttindi fatlaðs fólks og þjónustu sem það á rétt á og þarf að fá til að hafa raunhæf tækifæri til að njóta þeirra mannréttinda, til jafns við aðra íbúa sveitarfélaga.
Með því að falla frá kröfu í lögum um þjónustusvæði með lágmarksfjölda íbúa varð einnig enn örðugra fyrir ríkið að standa við þá lagalegu skyldu sína að tryggja jafnræði og samræmi milli búsetusvæða fatlaðs fólks hvað varðar aðgang að lögbundinni þjónustu. Það er mjög brýnt viðfangsefni sem verður enn þá erfiðara viðfangs með fleiri „þjónustueiningum“. Í þessu sambandi verður að líta til þess að það er alvarlegt brot gegn mannréttindum ef íbúum landsins er mismunað á grundvelli búsetu hvað varðar þjónustu þar sem í húfi eru mjög miklir hagsmunir og réttindi þeirra sem í hlut eiga og mjög oft er lögbundin þjónusta við fatlað fólk forsenda þess að þeir sem á henni þurfa að halda fái notið mikilsverðra mannréttinda í skilningi laga, samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og annarra fjölþjóðlegra mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur undirgengist.
Einnig verður í þessu sambandi að líta til þess að ósamræmi og/eða ójafnræði á milli búsetusvæða að þessu leyti vegur einnig mjög alvarlega að tækifærum fatlaðs fólks til að ráða búsetu sinni og flytjast á milli svæða og mest að tækifærum þeirra sem hafa miklar þjónustuþarfir vegna fötlunar sinnar og eru því mest háðir þjónustunni. Rétturinn til að ráða búsetu sinni er mannréttindi í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Eftir því sem „þjónustueiningarnar“ verða fleiri eykst hætta á ósamræmi milli þeirra eðli máls samkvæmt.
Að lokum vilja Landssamtökin Þroskahjálp ítreka áskorun sína til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga um að leiða á tafar til lykta langvarandi togstreitu sína varðandi kostnað af að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til sjálfstæðs lífs og þátttöku í samfélaginu, sem kveðið er á um stjórnarskrá, lögum og fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undigengist og þykja sjálfsögð þegar í hlut eiga aðrir íbúar í landinu og í sveitarfélögunum.
Þessi langvarandi togstreita og sífelld opinber umræða henni tengd er mjög oft meiðandi og niðurlægjandi fyrir allt fatlað fólk og vegur að sjálfsmynd þess og ímynd og ýtir undir fordóma gagnvart fötluðu fólki og stuðlar að aðgreiningu þess.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdstjóri Þroskahjálpar
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér