Í nútímasamfélagi er litið á eigið heimili sem sjálfsögð mannréttindi enda tengist
það sjálfsmynd, friðhelgi einkalífs og sjálfstæði órjúfanlegum böndum.
Fólk með sérstakar þarfir vegna fötlunar á tilkall til þessarra mannréttinda eins og allir aðrir.
Hverjum og einum ber einstaklingsmiðuð þjónusta og stuðningur svo hann geti notið þeirra lífsgæða sem felst í því
að eiga eigið heimili.
Rétturinn til að búa á eigin heimili felur í sér réttinn til að eiga eða leigja íbúð í almennu
íbúðahverfi. Allir þeir sem við fötlun búa skulu eiga kost á raunverulegu vali varðandi búsetu sína. Rétturinn til að
búa á eigin heimili felur einnig í sér réttinn til að velja hvar og með hverjum viðkomandi vill búa. Heimili þar sem óskir og
þarfir húsráðanda eru í fyrirrúmi ásamt virðingu eru grundvallarskilyrði fyrir sönnum lífsgæðum.
Hver einstaklingur skal eiga rétt á einkarými sem stenst lágmarkskröfur byggingareglugerðar um íbúðir auk viðbótarrýmis vegna
fötlunar og þjónustuþarfa.
Íbúðir með sameiginlegu rými, s.s. eldhúsi og stofu leiða af sér þá hættu að ýmis þjónusta vegna
heimilishalds færist út af heimilinu á kostnað þeirra lífsgæða sem eigið heimili gefur kost á.
Slík notkun á sameiginlegu rými á ekki rétt á sér.
Skipulag, hönnun og aðgengi íbúðarhverfa og þjónustubygginga skulu vera með þeim hætti að allir geti nýtt sér þar
þjónustu. Bústaðir fatlaðra eiga að falla vel að umhverfinu og skera sig á engan hátt úr. Heimili fatlaðra skulu dreifast milli hverfa og
byggðarlaga og tryggja ber að átthagafjötrar komi aldrei í veg fyrir val á aðsetri.
Taka skal tillit til ofangreindra þátta í öllum þáttum skipulagsgerðar, hvort heldur er í svæðaskipulagi, aðalskipulagi eða
deiliskipulagi skv. skipulagslögum.
Ítarefni:
- Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Greinar: 1, 17, 19 og 22