Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks (2020)

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er alþjóðlegur mannréttindasamningur sem ætlað er að verja og efla réttindi og virðingu fatlaðs fólks. Aðildarríki viðurkenna að fatlað fólk hefur ekki hlotið sömu tækifæri og réttindi til jafns við aðra, og ber að vinna að þeim. 

Samningurinn var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum árið 2007 og fullgiltur árið 2016. Hann hefur þó ekki enn verið lögfestur, né valkvæði viðaukinn með samningnum. Landssamtökin Þroskahjálp telja það afar brýnt til að tryggja fötluðu fólki réttindi og tækifæri til jafns við aðra. Árið 2019 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa lögfestingu samningsins og að frumvarp þess efnis skyldi lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020, en þingið hefur ekki enn staðið við eigin yfirlýsingar.

Smelltu hér til að lesa samninginn á auðlesnu máli.

 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Ný þýðing 2020

Formálsorð

    Ríki, sem eiga aðild að samningi þessum,
         a)          sem minnast meginreglna, sem kunngerðar eru í Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem eðlislæg reisn og verðleikar og jöfn og óafsalanleg réttindi alls fólks eru viðurkennd sem undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum
         b)          sem viðurkenna að Sameinuðu þjóðirnar hafa kunngert og samþykkt í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningunum um mannréttindi, að allt fólk eigi rétt til allra þeirra réttinda og frelsis sem þar er að finna án greinarmunar af nokkru tagi,
         c)          sem árétta að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi eru algild, ódeilanleg, innbyrðis háð og samtvinnuð og árétta nauðsyn þess að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra að fullu án mismununar,
         d)          sem minnast alþjóðasamningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningsins um afnám alls kynþáttamisréttis, samningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningsins gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, samningsins um réttindi barnsins og alþjóðasamningsins um verndun réttinda allra farandlaunþega og fjölskyldumeðlima þeirra,
         e)          sem viðurkenna að hugtakið fötlun er í þróun og að fötlun er afsprengi samspils milli fólks með skerðingar annars vegar og umhverfis og viðhorfa hins vegar sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra,
         f)          sem viðurkenna mikilvægi meginreglna og stefnumótandi leiðbeininga, sem felast í Alþjóðlegu framkvæmdaáætluninni í þágu fatlaðs fólks og í Meginreglunum um jöfnun tækifæra fyrir fatlað fólk, fyrir eflingu, mótun og mat á stefnum, fyrirætlunum, áætlunum og aðgerðum innan lands, á tilteknum svæðum og á alþjóðavettvangi, í því skyni að jafna enn frekar tækifæri fötluðu fólki til handa,
         g)          sem leggja áherslu á mikilvægi þess að samþætta málefni er varða fötlun sem óaðskiljanlegan þátt í viðeigandi áætlunum um sjálfbæra þróun,
         h)          sem viðurkenna einnig að mismunun gagnvart sérhverjum einstaklingi á grundvelli fötlunar brýtur gegn eðlislægri reisn og verðleikum manneskjunnar,
         i)          sem viðurkenna enn frekar margbreytileika fatlaðs fólks,
         j)          sem viðurkenna nauðsyn þess að efla og vernda mannréttindi alls fatlaðs fólks, þ.m.t. þess sem þarf mikinn stuðning,
         k)          sem hafa af því áhyggjur að þrátt fyrir þá margvíslegu gerninga og skuldbindingar sem áður getur er samfélagsþátttaka fatlaðs fólks sem jafn rétthárra borgara í samfélaginu hindruð og mannréttindi þess brotin í öllum heimshlutum,
         l)          sem viðurkenna mikilvægi alþjóðasamstarfs í því skyni að bæta lífsskilyrði fatlaðs fólks í öllum löndum, einkum þróunarlöndum,
         m)          sem viðurkenna hið mikilvæga framlag sem fatlað fólk innir eða gæti innt af hendi til almennrar velsældar og margbreytni innan samfélaga þess og að efling mannréttinda og grundvallarfrelsis auk fullrar þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu muni leiða til aukinnar tilfinningar þess fyrir því að tilheyra samfélaginu og til verulegra framfara í mannlegri, félagslegri og efnahagslegri þróun samfélagsins og til útrýmingar fátæktar.
         n)          sem viðurkenna mikilvægi sjálfræðis og sjálfstæðis fyrir fatlað fólk, þ.m.t. frelsis til að taka eigin ákvarðanir,
         o)          sem telja að fatlað fólk eigi að hafa tækifæri til að taka virkan þátt í ákvarðanatökuferli um stefnur og áætlanir, meðal annars þær sem varða það með beinum hætti,
         p)          sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir fjölþættri eða aukinni mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernis eða félagslegs uppruna eða frumbyggjauppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu,
         q)          sem viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, á að verða fyrir ofbeldi, skaða eða misþyrmingum, vanrækslu eða hirðuleysi, illri meðferð eða misnotkun í gróðaskyni,
         r)          sem viðurkenna að fötluð börn eigi að njóta til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn og minnast skyldna til þess sem aðildarríki samningsins um réttindi barnsins hafa undirgengist,
         s)          sem leggja áherslu á nauðsyn þess að innleiða kynjasjónarmið í allar aðgerðir sem ætlað er að ná fram fullum mannréttindum og grundvallarfrelsi fatlaðs fólks,
         t)          sem vilja draga fram þá staðreynd að meiri hluti fatlaðs fólks býr við fátækt og viðurkenna í því sambandi að knýjandi þörf er á að vinna gegn neikvæðum áhrifum fátæktar á fatlað fólk,
         u)          sem hafa hugfast að friður og öryggi sem byggist á fullri virðingu fyrir tilgangi og meginreglum Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og virðingu fyrir gildandi mannréttindagerningum er forsenda þess að fatlað fólk njóti fullrar verndar, einkum þegar vopnuð átök standa yfir og undir erlendu hernámi,
         v)          sem viðurkenna mikilvægi aðgengis fatlaðs fólks að efnislegu, félagslegu, efnahagslegu og menningarlegu umhverfi sínu, að heilbrigði og menntun og að upplýsingum og samskiptamiðlum til þess að gera því kleift að njóta að fullu allra mannréttinda og grundvallarfrelsi,
         w)          sem gera sér ljóst að sérhver einstaklingur ber skyldur gagnvart öðrum einstaklingum og samfélaginu sem hann eða hún tilheyrir og ber þar með ábyrgð á að berjast fyrir eflingu og framgangi þeirra réttinda sem viðurkennd eru í alþjóðaréttindaskránni,
         x)          sem eru þess fullviss að fjölskyldan er hin eðlilega frumeining samfélagsins sem samfélagi og ríki ber að vernda og að fatlað fólk og fjölskyldur þess eigi að fá nauðsynlega vernd og aðstoð til þess að gera fjölskyldum kleift að leggja sitt af mörkum til þess að fatlað fólk geti notið réttinda sinna til fulls og til jafns við aðra,
         y)          sem eru þess fullviss að víðtækur og heildstæður alþjóðasamningur, sem ætlað er að efla og vernda réttindi og mannlega reisn fatlaðs fólks, muni verða mikilvægt framlag til þess að bæta úr rótgróinni félagslega erfiðri stöðu fatlaðs fólks og muni efla þátttöku þess sem borgara og á vettvangi stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála til jafns við aðra, bæði í þróunarlöndum og iðnríkjum,

     hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.
Markmið.

    Markmiðið með samningi þessum er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.

    Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

    „Samskipti“ taka til tungumála, framsetningar texta, punktaleturs, snertitáknmáls, stækkaðs leturs, aðgengilegrar margmiðlunar, einnig ritmáls, talmáls, auðskilins máls, talgervla og aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forms, meðal annars aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni,
    „tungumál“ tekur til talaðs máls og táknmáls og annars konar máls sem ekki er talað,
    „mismunun á grundvelli fötlunar“ merkir hvers konar greinarmun útilokun eða takmörkun á grundvelli fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi séu viðurkennd, þeirra sé notið eða þau séu nýtt, á jafnréttisgrundvelli, á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála, sem borgari eða á öðrum sviðum. Hugtakið tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, þ.m.t. þegar fötluðu fólki er neitað um viðeigandi aðlögun,
    „viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi,
    „algild hönnun“ merkir hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu, sem allt fólk getur nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfi til umbreyting eða sérstök hönnun. „Algild hönnun“ á ekki að útiloka hjálpartæki fyrir tiltekna hópa fatlaðs fólks, þar sem þeirra er þörf.

3. gr.
Almennar meginreglur.

    Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:
         a)          virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þ.m.t. frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga,
         b)          bann við mismunun,
         c)          full og árangursrík þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar, 
         d)          virðing fyrir fjölbreytni og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni,
         e)          jöfn tækifæri,
         f)          aðgengi,
         g)          jafnrétti á milli karla og kvenna,
         h)          virðing fyrir stigvaxandi getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

4. gr.
Almennar skuldbindingar.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,
         d)          að aðhafast ekkert það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,
         e)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að uppræta mismunun á grundvelli fötlunar af hálfu sérhvers einstaklings, samtaka eða einkaaðila,
         f)          að framkvæma eða gangast fyrir rannsóknum og þróun á algildri hönnun framleiðsluvara, þjónustu, tækja og aðstöðu í samræmi við 2. gr. samnings þessa, sem breyta þarf sem allra minnst og með sem minnstum tilkostnaði til þess að mæta sérstökum þörfum fatlaðs fólks, til að stuðla að framboði á þeim og notkun og til að stuðla að algildri hönnun í þróun staðla og leiðbeininga,
         g)          að framkvæma eða gangast fyrir rannsóknum og þróun á nýrri tækni, og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð, þar á meðal upplýsinga- og samskiptatækni, ferliaðstoð, búnaði og hjálpartækni sem henta fötluðu fólki, með áherslu á tækni á viðráðanlegu verði,
         h)          að láta fötluðu fólki í té aðgengilegar upplýsingar um ferliaðstoð, búnað og hjálpartækni, þar á meðal nýja tækni auk annarra tegunda aðstoðar, stuðningsþjónustu og búnaðar,
         i)          að efla þjálfun og þekkingu fagfólks og starfsfólks sem vinnur með fötluðu fólki á þeim réttindum sem eru viðurkennd með samningi þessum í því skyni að betrumbæta þá aðstoð og þjónustu sem þau réttindi tryggja.

     2.      Að því er varðar efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi skuldbindur sérhvert aðildarríki sig til þess að gera ráðstafanir, eins og efni þess frekast leyfa og með þátttöku í alþjóðasamstarfi, eftir því sem þörf krefur, í því skyni að fyrrnefnd réttindi verði í einu og öllu virk í áföngum með fyrirvara um þær skuldbindingar samkvæmt samningi þessum sem verða nú þegar virkar í samræmi við alþjóðalög.
     3.      Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
     4.      Ekkert í samningi þessum hefur áhrif á ákvæði sem stuðla frekar að því að réttindi fatlaðs fólks verði að veruleika og lög aðildarríkis eða alþjóðalög, sem gilda gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki, kunna að innihalda. Eigi skal takmarka eða víkja frá nokkrum mannréttindum og grundvallarfrelsi, sem eru viðurkennd eða gilda í aðildarríki að samningi þessum samkvæmt lögum, samningum, reglum eða venju, undir því yfirskini að samningur þessi viðurkenni ekki slík réttindi eða frelsi eða viðurkenni þau í minna mæli.
     5.      Ákvæði samnings þessa gilda alls staðar í sambandsríkjum án nokkurra takmarkana eða undanþága.

5. gr.
Jafnrétti og bann við mismunun.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 

6. gr.
Fatlaðar konur.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra. 
     2.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fullu þróun, framgang og valdeflingu kvenna í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og grundvallarfrelsis sem samningur þessi kveður á um.

7. gr.
Fötluð börn.

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

8. gr.
Vitundarvakning.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:
         a)          til þess að koma á vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, þar á meðal innan fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess, 
         b)          til þess að vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, þar á meðal þeim sem tengjast kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins, 
         c)          til þess að efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks.
     2.      Meðal aðgerða í þessu skyni má nefna:
         a)          að standa fyrir og vinna stöðugt að árangursríkum átaksverkefnum um vitundarvakningu hjá almenningi sem miða að því:
                   i.      að gera almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks,
                   ii.      að styrkja jákvæða ímynd fatlaðs fólks og efla samfélagslega vitund um málefni þess,
                   iii.      að stuðla að viðurkenningu á færni, verðleikum og getu fatlaðs fólks sem og á framlagi þess til vinnustaða sinna og vinnumarkaðarins
         b)          að ýta undir að á öllum sviðum menntakerfisins, þ.m.t. hjá öllum börnum frá unga aldri, ríki virðing fyrir réttindum fatlaðs fólks
         c)          að hvetja allar gerðir fjölmiðla til að gefa þá mynd af fötluðu fólki sem samræmist tilgangi samnings þessa,
         d)          að efla fræðsluáætlanir til vitundarvakningar um fatlað fólk og réttindi þess

9. gr.
Aðgengi.

     1.      Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ráðstafanir þessar, sem skulu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til:
         a)          bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar á meðal skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisstofnana og vinnustaða,
         b)          upplýsinga og samskipta auk annarrar þjónustu, þar á meðal rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.
     2.      Aðildarríki skulu enn fremur gera viðeigandi ráðstafanir til þess að:
         a)          þróa, breiða út þekkingu á og fylgjast með innleiðingu lágmarksviðmiða og leiðbeininga um aðgengi að aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi
         b)          tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu sem veitt er eða opin almenningi, taki mið af öllum þáttum aðgengis fatlaðs fólks,
         c)          standa fyrir fræðslu fyrir hagsmunaaðila um þau aðgengis vandamál sem fatlað fólk stendur frammi fyrir,
         d)          hafa merkingar með punktaletri og á auðlesnu og auðskiljanlegu formi í byggingum og annarri aðstöðu, sem almenningi stendur opin,
         e)          láta í té ýmiss konar aðstoð og þjónustu milliliða, þar á meðal fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, í því skyni að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem opin er almenningi,
         f)          efla önnur viðeigandi form aðstoðar og stuðnings við fatlað fólk í því skyni að tryggja aðgang þess að upplýsingum,
         g)          efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu,
         h)          við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.

10. gr.
Réttur til lífs.

    Aðildarríkin árétta að sérhver manneskja eigi eðlislægan rétt til lífs og skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái notið hans á árangursríkan hátt til jafns við aðra.

11. gr.
Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.

    Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.

12. gr.
Jöfn viðurkenning fyrir lögum.

     1.      Aðildarríkin árétta að fatlað fólk á rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem persónur að lögum. 
     2.      Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.
     3.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir löghæfi sitt.
     4.      Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða nýtingu löghæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríka vernd til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Með slíkri vernd skal tryggt að ráðstafanir sem varða nýtingu löghæfis virði réttindi, vilja og óskir einstaklingsins, leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg áhrif, séu í samræmi við og sniðin að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í skemmsta mögulega tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru sjálfstæðu og óháðu yfirvaldi eða dómstóli. Verndin skal taka mið af og vera í samræmi við þau áhrif sem slíkar ráðstafanir hafa á réttindi og hagsmuni einstaklingsins.
     5.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, stýra eigin fjármálum og hafa til jafns við aðra aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar lánafyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum eftir geðþótta.

13. gr.
Aðgangur að réttinum.

     1.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
     2.      Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.

14. gr.
Frelsi og öryggi einstaklingsins.

     1.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra:
         a)          njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis,
         b)          sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.
     2.      Sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

15. gr.
Frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

     1.      Enginn skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einkum og sér í lagi er óheimilt að gera læknisfræði- eða vísindatilraunir á nokkurri manneskju án samþykkis hennar. 
     2.      Aðildarríkin skulu gera allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, réttarkerfisins, eða aðrar ráðstafanir, í því skyni að vernda fatlað fólk, til jafns við aðra, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. 

16. gr.
Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, þar á meðal kynbundnum hliðum þessa.
     2.      Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, þar á meðal með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess og umönnunaraðilum viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með upplýsingagjöf og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að við þá þjónustu þar sem vernd er veitt sé tekið mið af kyni, aldri og fötlun. 
     3.      Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi árangursríkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki. 
     4.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að efla líkamlegan, vitsmunalegan og sálrænan bata, endurhæfingu og félagslega enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit skal tekið til kyn- og aldursbundinna þarfa. 
     5.      Aðildarríkin skulu taka upp árangursríka löggjöf og stefnu, þar á meðal löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til að tryggja að misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki verði greindar, rannsakaðar og eftir atvikum ákært vegna þeirra.

17. gr.
Verndun friðhelgi einstaklingsins.

    Allt fatlað fólk á rétt á virðingu fyrir líkamlegri og andlegri friðhelgi til jafns við aðra. 

18. gr.
Ferðafrelsi og ríkisfang.

     1.      Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til ferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu og rétt til ríkisfangs, meðal annars með því að ábyrgjast að fatlað fólk:
         a)          hafi rétt til að öðlast ríkisfang og breyta því og sé ekki svipt ríkisfangi sínu eftir geðþótta eða á grundvelli fötlunar,
         b)          sé ekki, á grundvelli fötlunar, svipt tækifæri til að fá, hafa umráð yfir og nýta sér skjöl um ríkisfang sitt eða önnur auðkenningarskjöl eða til að nýta sér viðeigandi ferli, svo sem málsmeðferð vegna innflytjendamála, sem kann að vera nauðsynlegt til þess að greiða fyrir nýtingu réttarins til ferðafrelsis,
         c)          hafi frelsi til að yfirgefa hvaða land sem er, þ.m.t. sitt eigið,
         d)          sé ekki, eftir geðþótta eða á grundvelli fötlunar, svipt réttinum til að koma til síns eigin lands.
     2.      Fötluð börn skulu skráð þegar eftir fæðingu og eiga frá fæðingu rétt til nafns, rétt til þess að öðlast ríkisfang og, eftir því sem unnt er, rétt til þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.

19. gr.
Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

    Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja: 
         a)          að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi,
         b)          að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu,
         c)          að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þess.

20. gr.
Ferlimál einstaklinga.

    Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því:
         a)          að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti og á þeim tíma sem það kýs og á viðráðanlegu verði,
         b)          að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að gæðaferliaðstoð, -búnaði, -stuðningstækni og ýmiss konar persónulegri aðstoð og milliliðum, þar á meðal með því að hafa búnað og þjónustu tiltæk á viðráðanlegu verði,
         c)          að láta fötluðu fólki og sérhæfðu starfsfólki, sem vinnur með því, í té fræðslu og þjálfun í hreyfifærni,
         d)          að hvetja framleiðendur hjálpartækja, búnaðar og stuðningstækni til þess að taka tillit til allra þátta ferlimála fatlaðs fólks.

21. gr.
Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum.

    Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hvers kyns samskiptamiðlum að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, þar á meðal með því:
         a)          að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem tekur mið af mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar,
         b)          að viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, punktaleturs, aukinna og óhefðbundinna samskipta og allra annarra aðgengilegra samskiptaleiða, -máta og -forma sem fatlað fólk kýs að nota í opinberum samskiptum,
         c)          að brýna fyrir einkaaðilum sem bjóða almenningi þjónustu, þar á meðal gegnum netið, að veita upplýsingar og þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk, 
         d)          að hvetja fjölmiðla, þ.m.t. upplýsingaveitur á netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki,
         e)          að viðurkenna og efla notkun táknmáls.

22. gr.
Virðing fyrir einkalífi.

     1.      Engin fötluð manneskja skal, óháð búsetustað eða -formi, sæta ólögmætum afskiptum eða geðþótta afskiptum af einkalífi sínu, fjölskyldu, skriflegum samskiptum eða öðrum samskiptum eða ólögmætum árásum á æru sína og orðstír. Fatlað fólk á rétt á lagalegri vernd gegn slíkum afskiptum eða árásum.
     2.      Aðildarríkin skulu vernda trúnað um upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks til jafns við aðra.

23. gr.
Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.

     1.      Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja:
         a)          að réttur alls fatlaðs fólks, sem hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,
         b)          að réttur fatlaðs fólks til frjálsrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, sem hæfir aldri þess, að upplýsingum og fræðslu um frjósemisheilbrigði og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu veitt nauðsynleg úrræði sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt,
         c)          að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.
     2.      Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks að því er varðar lögráð, forsjá, fjárhald, ættleiðingar barna eða sambærilega þætti, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum; skulu hagsmunir barnsins í öllum málum vera í fyrirrúmi. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðgreiningar skuldbinda aðildarríkin sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.
     4.      Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema til þess bær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómstóla og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur vegna þess sem er barninu fyrir bestu. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum á grundvelli fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.
     5.      Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda getur ekki annast fatlað barn, að sjá barninu fyrir annarri umönnun innan stórfjölskyldunnar, en að öðrum kosti tryggja því umönnun hjá fjölskyldu innan nærsamfélagsins.

24. gr.
Menntun.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og við símenntun sem beinist að því:
         a)          að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og að virðing fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi og mannlegum margbreytileika vaxi, 
         b)          að fatlað fólk geti þroskað til fulls persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,
         c)          að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.
     2.      Til að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:
         a)          að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu á grundvelli fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi á grundvelli fötlunar,
         b)          að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun án aðgreiningar, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, í þeim samfélögum þar sem það býr,
         c)          að viðeigandi aðlögun sé veitt í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklings,
         d)          að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess, 
         e)          að árangursríkur, einstaklingsmiðaður stuðningur sé veittur í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku án aðgreiningar.
     3.      Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem borgarar í samfélaginu. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:
         a)          auðvelda fólki að læra punktaletur, óhefðbundna ritun, auknar og óhefðbundnar samskiptaleiðir, -máta og -form og færni í skynjun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjaráðgjöf,
         b)          auðvelda fólki að læra táknmál og efla sjálfsmynd heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks með tilliti til tungumáls,
         c)          tryggja að menntun fólks, og þá sérstaklega barna, sem er blint eða sjónskert, heyrnarlaust eða heyrnarskert eða fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.
     4.      Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, þar á meðal fatlaða kennara með sérþekkingu á táknmáli og/eða punktaletri, og þjálfa fagfólk og starfsfólk sem starfar á öllum sviðum menntakerfisins. Slík þjálfun skal fela í sér vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.
     5.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

25. gr.
Heilbrigði.

    Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu sérstaklega:
         a)          sjá fötluðu fólki fyrir heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra, meðal annars á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu,
         b)          sjá fötluðu fólki fyrir þeirri heilbrigðisþjónustu sem það þarfnast sérstaklega vegna fötlunar sinnar, þar á meðal að bera kennsl á og grípa til aðgerða eins fljótt og auðið er eftir því sem við á og veita þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari fötlun, þ.m.t. meðal barna og eldra fólks,
         c)          bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt heimabyggð fólks og frekast er unnt, þar á meðal í dreifbýli,
         d)          gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, þar á meðal á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, meðal annars með vitundarvakningu um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun og útbreiðslu siðferðilegra viðmiða fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilbrigðisþjónustu,
         e)          leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki á sviði sjúkratrygginga og líftrygginga, þar sem slíkar tryggingar eru heimilar að landsrétti, sem skulu veittar á sanngjarnan og réttmætan hátt,
         f)          koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu eða um mat og drykk á grundvelli fötlunar.

26. gr.
Hæfing og endurhæfing.

     1.      Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með jafningjastuðningi, til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast og viðhalda sem mestu sjálfstæði, fullri líkamlegri, andlegri og félagslegri getu, ásamt starfsgetu, og að taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins án aðgreiningar. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka heildstæða þjónustu og áætlanagerð á sviði hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim hætti að slík þjónusta og áætlanir:
         a)          hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrkleikum hvers einstaklings um sig,
         b)          styrki þátttöku í heimabyggð og á öllum sviðum þjóðfélagsins án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst heimabyggð þess, þar á meðal í dreifbýli.
     2.      Aðildarríkin skulu efla þróun grunnþjálfunar og símenntunar fagfólks og starfsfólks sem vinnur við hæfingu og endurhæfingu.
     3.      Aðildarríkin skulu stuðla að því að hjálpartæki og tækni, sem eru hönnuð fyrir fatlað fólk og notuð eru til hæfingar og endurhæfingar, séu tiltæk og þekking á þeim sé fyrir hendi.

27. gr.
Vinna og starf.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þau sem verða fötluð meðan þau gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með lagasetningu, til þess meðal annars:
         a)          að leggja bann við mismunun á grundvelli fötlunar að því er varðar öll málefni sem tengjast atvinnu af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
         b)          að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annars fólks, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, þar á meðal jafnra tækifæra og sama endurgjalds fyrir jafnverðmæt störf, öryggis og hollustu á vinnustað, þar á meðal verndar gegn áreitni, og úrbóta vegna misréttis sem það telur sig hafa orðið fyrir,
         c)          að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,
         d)          að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og símenntun,
         e)          að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi og snúa aftur á vinnumarkað,
         f)          að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,
         g)          að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,
         h)          að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með viðeigandi stefnu og ráðstöfunum sem geta falist í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,
         i)          að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun á vinnustað,
         j)          að efla möguleika fatlaðs fólks til að afla sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
         k)          að efla starfstengda og faglega endurhæfingu fatlaðs fólks, að það geti haldið störfum sínum og áætlanir um að það geti snúið aftur til starfa.
     2.      Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu.

28. gr.
Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar. 
     2.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar á grundvelli fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, þar á meðal ráðstafanir:
         a)          til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að hreinu vatni á við aðra og að tryggja aðgang að viðeigandi þjónustu, búnaði og annarri aðstoð á viðráðanlegu verði vegna þarfa sem tengjast fötlun,
         b)          til þess að tryggja fötluðu fólki, einkum fötluðum konum og stúlkum og fötluðu eldra fólki, aðgang að áætlunum á sviði félagslegrar verndar og áætlunum um að draga úr fátækt,
         c)          til þess að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að standa straum af útgjöldum vegna fötlunar, þar á meðal útgjöldum vegna viðeigandi þjálfunar, ráðgjafar, fjárhagslegrar aðstoðar og hvíldarumönnunar,
         d)          til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera,
         e)          til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang á við aðra að eftirlaunum og eftirlaunakerfum.

29. gr.
Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.

    Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
         a)          tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa að eigin frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosið, þar á meðal með því:
                   i.      að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð, 
                   ii.      að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án ógnana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með árangursríkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,
                   iii.      að tryggja að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklings að eigin vali við að greiða atkvæði,
         b)          vinna á virkan hátt að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið árangursríkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þess í opinberri starfsemi, þar á meðal:
                   i.      þátttöku í starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almennings varða og stjórnmálalíf viðkomandi lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka,
                   ii.      þátttöku í því að móta og gerast aðilar að samtökum fatlaðs fólks til að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks á alþjóðavettvangi, heima fyrir á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga.

30. gr.
Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk:
         a)          njóti aðgengis að menningarefni í aðgengilegu formi,
         b)          njóti aðgengis að sjónvarpsefni, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum menningarviðburðum í aðgengilegu formi,
         c)          njóti aðgengis að stöðum þar sem flutningur menningarefnis eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðaþjónustu og njóti, eftir því sem við verður komið, aðgengis að minnisvörðum og stöðum sem hafa þjóðmenningarlegt gildi.
     2.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.
     3.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, í samræmi við alþjóðalög, til þess að tryggja að lög, sem vernda hugverkarétt, feli ekki í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki eða óréttmætar hindranir við aðgang þess að menningarefni.
     4.      Fatlað fólk skal eiga rétt, til jafns við aðra, á viðurkenningu og stuðningi við sérstaka menningar- og tungumálssjálfsmynd sína, þar á meðal táknmál og menningu heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks.
     5.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, til þess að:
         a)          hvetja til og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,
         b)          tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og stuðla í því skyni að framboði á viðeigandi leiðsögn, þjálfun og úrræðum til jafns við aðra,
         c)          tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,
         d)          tryggja fötluðum börnum jafnt aðgengi á við önnur börn til þátttöku í leikjum, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, þar á meðal innan skólakerfisins,
         e)          tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku. frístunda- og íþróttastarfs.

31. gr.
Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. Vinnuferli við að safna og viðhalda þessum upplýsingum skulu: 
         a)          vera í samræmi við lögmæltar öryggisráðstafanir, þar á meðal löggjöf um gagnavernd, til þess að tryggja trúnað og virðingu fyrir einkalífi fatlaðs fólks;
         b)          vera í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið um vernd mannréttinda og grundvallarfrelsis og siðferðileg viðmið við söfnun og notkun tölfræðilegra upplýsinga.
     2.      Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og takast á við þær hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.
     3.      Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.

32. gr.
Alþjóðlegt samstarf.

1.      Aðildarríkin viðurkenna mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og eflingu þess til stuðnings innlendum aðgerðum til þess að tilgangur og markmið samnings þessa megi verði að veruleika og munu gera viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir hvað það varðar milli og meðal ríkja og, eftir því sem við á, í samvinnu við hlutaðeigandi alþjóða- og svæðisstofnanir og borgaralegt samfélag, einkum samtök fatlaðs fólks. Slíkar ráðstafanir gætu meðal annars tekið til þess:
         a)          að tryggja að alþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðlegar þróunaráætlanir, nái til fatlaðs fólks og sé því aðgengilegt,
         b)          að greiða fyrir og styðja uppbyggingu þekkingar og getu, þar á meðal með því að skiptast á og miðla upplýsingum, reynslu, þjálfunaráætlunum og bestu starfsvenjum,
         c)          að greiða fyrir samvinnu á sviði rannsókna og auðvelda aðgengi að vísinda- og tækniþekkingu,
         d)          að láta í té, eftir því sem við á, tækni- og efnahagsaðstoð, meðal annars með því að auðvelda aðgang að og miðla aðgengilegri og styðjandi tækni og með yfirfærslu á tækni.
     4.      Ákvæði þessarar greinar hafa engin áhrif á þá skyldu sérhvers aðildarríkis að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.

33. gr.
Framkvæmd og eftirlit innan lands.

     1.      Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samnings þessa og taka til tilhlýðilegrar umfjöllunar hvort koma skuli á eða tiltaka samræmingarkerfi innan stjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum á ólíkum sviðum og ólíkum stigum.
     2.      Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á innviðum, þar á meðal einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að styrkja, vernda og hafa eftirlit með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi þjóðbundinna mannréttindastofnana.
     3.      Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

34. gr.
Nefnd um réttindi fatlaðs fólks.

     1.      Setja ber á stofn nefnd um réttindi fatlaðs fólks (hér eftir nefnd „nefndin“) sem skal vinna þau verk sem kveðið er á um hér á eftir.
     2.      Þegar samningur þessi tekur gildi skulu tólf sérfræðingar skipa nefndina. Eftir að sextíu aðilar til viðbótar hafa fullgilt samninginn eða gerst aðilar að honum skal fjölga í nefndinni um sex fulltrúa sem þýðir að hámarksfjöldi fulltrúa í nefndinni verður átján.
     3.      Nefndarfólk situr í nefndinni á eigin forsendum sem einstaklingar og skal hafa sterka siðferðisvitund og viðurkennda hæfni og reynslu á því sviði sem samningur þessi tekur til. Óskað er eftir því að aðildarríkin taki eðlilegt tillit til ákvæða 3. mgr. 4. gr. samnings þessa þegar þau tilnefna frambjóðendur sína.
     4.      Aðildarríkin kjósa fulltrúa í nefndina að teknu tilliti til jafnrar dreifingar milli heimshluta, þess að fulltrúar komi frá ólíkum menningarþjóðfélögum og helstu réttarkerfum og að teknu tilliti til jafnrar þátttöku kynjanna og þátttöku fatlaðra sérfræðinga.
     5.      Fulltrúarnir í nefndinni skulu kjörnir í leynilegri atkvæðagreiðslu af lista einstaklinga, sem aðildarríkin tilnefna úr hópi borgara sinna, þegar fundir þings aðildarríkjanna fara fram. Á þeim fundum, sem eru ákvörðunarbærir, eigi tveir þriðju aðildarríkjanna þar fulltrúa, skulu þeir einstaklingar sem eru kjörnir til setu í nefndinni vera þeir sem hljóta flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.
     6.      Halda ber fyrstu kosningu eigi síðar en sex mánuðum eftir þann dag þegar samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda aðildarríkjunum bréf eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir dagsetningu sérhverrar kosningar og óska eftir tilnefningum þeirra innan tveggja mánaða. Aðalframkvæmdastjórinn tekur því næst saman skrá í stafrófsröð yfir allt það fólk sem þannig er tilnefnt og þar sem fram kemur hvaða aðildarríki tilnefndi það og sendir að svo búnu skrána þeim ríkjum sem eru aðilar að samningi þessum.
     7.      Kjörtímabil fulltrúa í nefndinni er fjögur ár. Heimilt er að endurkjósa þá einu sinni. Engu að síður skal kjörtímabili sex þeirra sem eru kosnir í fyrstu kosningu ljúka að tveimur árum liðnum; strax að lokinni fyrstu kosningu skal fundarstjóri, á fundi þeim er um getur í 5. mgr. þessarar greinar, velja nöfn fyrrnefndra sex nefndarfulltrúa með hlutkesti.
     8.      Kjör hinna sex viðbótarfulltrúa í nefndinni skal fara fram þegar reglubundnar kosningar fara fram í samræmi við viðeigandi ákvæði þessarar greinar.
     9.      Falli nefndarfulltrúi frá eða segi af sér eða lýsi því yfir að hún eða hann geti ekki, af einhverri annarri ástæðu, gegnt skyldum sínum skal aðildarríkið, sem tilnefndi fulltrúann, skipa annan sérfræðing, sem hefur þá hæfni og uppfyllir þær kröfur er um getur í viðeigandi ákvæðum þessarar greinar, til þess að starfa í nefndinni út kjörtímabilið.
     10.      Nefndin skal setja sér eigin starfsreglur.
     11.      Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal útvega nauðsynlegt starfsfólk og aðstöðu til þess að nefndin geti sinnt störfum sínum með árangursríkum hætti samkvæmt samningi þessum og boða til fyrsta fundar hennar.
     12.      Þau sem sitja í nefndinni, sem er komið á fót samkvæmt samningi þessum, skulu með samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þiggja laun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem allsherjarþingið kann að ákveða, að teknu tilliti til mikilvægis þeirra ábyrgðarstarfa sem nefndin sinnir.
     13.      Fulltrúar í nefndinni eiga tilkall til aðstöðu, réttinda og friðhelgi sérfræðinga, sem reka erindi Sameinuðu þjóðanna, eins og mælt er fyrir um í viðeigandi hlutum Samningsins um réttindi og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna.

35. gr.
Skýrslugjöf aðildarríkjanna.

     1.      Sérhvert aðildarríki skal senda nefndinni, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, heildstæða skýrslu um ráðstafanir sem hafa verið gerðar í því skyni að efna skuldbindingar þess samkvæmt samningi þessum og um framfarir, sem hafa orðið á því sviði, innan tveggja ára frá því að samningur þessi öðlast gildi gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki.
     2.      Eftir það skulu aðildarríkin senda skýrslur sínar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti og oftar í hvert sinn sem nefndin fer fram á það.
     3.      Nefndin skal ákvarða allar leiðbeiningar um efni skýrslnanna.
     4.      Aðildarríki, sem hefur sent nefndinni heildstæða frumskýrslu, þarf ekki að endurtaka áður veittar upplýsingar í skýrslum sem á eftir koma. Óskað er eftir því, þegar aðildarríkin undirbúa skýrslur til nefndarinnar, að þau geri það með opnum og gagnsæjum hætti og taki eðlilegt tillit til ákvæðisins í 3. mgr. 4. gr. samnings þessa.
     5.      Í skýrslunum er heimilt að geta um þá þætti og erfiðleika sem hafa áhrif á það hvernig miðar að efna skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.

36. gr.
Umfjöllun um skýrslur.

     1.      Nefndin skal fjalla um sérhverja skýrslu og gera þær tillögur og leggja fram þau almennu tilmæli sem hún telur við eiga og senda hlutaðeigandi aðildarríki. Aðildarríkið getur svarað með því að láta nefndinni í té allar upplýsingar sem það kýs. Nefndin getur óskað eftir frekari upplýsingum frá aðildarríkjunum sem varða framkvæmd samnings þessa.
     2.      Dragist verulega á langinn að aðildarríki sendi skýrslu sína getur nefndin tilkynnt hlutaðeigandi aðildarríki um að nauðsynlegt sé að kanna framkvæmd samnings þessa í því aðildarríki, á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga sem nefndin hefur aðgang að, hafi viðkomandi skýrsla ekki verið send innan þriggja mánaða frá tilkynningunni. Nefndin skal bjóða hlutaðeigandi aðildarríki að taka þátt í slíkri könnun. Bregðist aðildarríkið við með því að senda viðkomandi skýrslu gilda ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.
     3.      Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera öllum aðildarríkjunum kleift að nálgast skýrslurnar.
     4.      Aðildarríkin skulu gera skýrslur sínar aðgengilegar almenningi í eigin löndum og greiða fyrir aðgangi að þeim tillögum og tilmælum sem varða þessar skýrslur.
     5.      Nefndin skal, eftir því sem hún telur við eiga, senda sérstofnunum, sjóðum og áætlunum Sameinuðu þjóðanna og öðrum bærum stofnunum, skýrslur frá aðildarríkjum, til þess að unnt sé að taka fyrir beiðni um eða vísbendingu um þörf fyrir tæknilega ráðgjöf eða aðstoð, sem þar kemur fram, ásamt athugasemdum nefndarinnar og tilmælum, ef um þau er að ræða, viðvíkjandi þessum beiðnum eða vísbendingum.

37. gr.
Samvinna milli aðildarríkjanna og nefndarinnar.

     1.      Sérhvert aðildarríki skal vinna með nefndinni og aðstoða nefndarfólk við að uppfylla skyldur sínar eftir því umboði sem veitt er.
     2.      Nefndin skal, í samskiptum sínum við aðildarríkin, taka eðlilegt tillit til leiða og aðferða við að auka getu innan lands til þess að framfylgja samningi þessum, þar á meðal í gegnum alþjóðlegt samstarf.

38. gr.
Tengsl nefndarinnar við aðrar stofnanir.

    Í því skyni að greiða fyrir árangursríkri framkvæmd samnings þessa og stuðla að samvinnu þjóða í milli á því sviði sem hann fjallar um:
         a)          Skulu sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðrar stofnanir þeirra hafa rétt til þess að eiga fyrirsvar þegar fjallað er um framkvæmd þeirra ákvæða samnings þessa sem umboð þeirra tekur til. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanirnar og aðrar bærar stofnanir, eftir því sem hún telur við hæfi, að þær leggi fram sérfræðiálit um framkvæmd samningsins innan þeirra sviða sem umboð hverrar um sig tekur til. Nefndin getur óskað eftir því við sérstofnanir og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna að þær leggi fram skýrslur um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem starfsemi þeirra tekur til.
         b)          Þegar nefndin uppfyllir skyldur sínar eftir umboði sínu skal hún hafa samráð, eftir því sem við á, við aðrar hlutaðeigandi stofnanir, sem er komið á fót samkvæmt alþjóðasamningum um mannréttindi, í því skyni að tryggja samræmi leiðbeininga, tillagna og almennra tilmæla hverrar um sig viðvíkjandi skýrslugerð og að forðast tvíverknað og skörun í störfum þeirra.

39. gr.
Skýrsla nefndarinnar.

    Nefndin skal gefa allsherjarþinginu og efnahags- og félagsmálaráðinu skýrslu um starfsemi sína og getur lagt fram tillögur og almenn tilmæli byggð á könnun skýrslna og upplýsingum frá aðildarríkjunum.

    Slíkar tillögur og almenn tilmæli ber að fella inn í skýrslu nefndarinnar ásamt athugasemdum, ef einhverjar eru, frá aðildarríkjunum. 

40. gr.
Þing aðildarríkjanna.

     1.      Fulltrúar aðildarríkjanna skulu hittast reglulega á þingi aðildarríkjanna í því skyni að fjalla um hvers kyns mál er varða framkvæmd samnings þessa.
     2.      Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman þing aðildarríkjanna eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjórinn boðar til funda annað hvert ár eftir það eða eins oft og þing aðildarríkjanna ákveður.

41. gr.
Vörsluaðili.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili samnings þessa.

42. gr.
Undirritun.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja og svæðisstofnana um samvinnu í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá og með 30. mars 2007.

43. gr.
Samþykki fyrir því að vera bundinn af samningi þessum.

    Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu undirritunarríkja og formlega staðfestingu svæðisstofnana um samvinnu sem undirrita hann. Samningurinn skal liggja frammi til aðildar af hálfu sérhvers ríkis eða svæðisstofnunar um samvinnu sem ekki hefur undirritað hann. 

44. gr.
Svæðisstofnanir um samvinnu.

     1.      „Svæðisstofnun um samvinnu“ merkir stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði koma á fót og hefur valdheimildir, sem aðildarríki hennar veita henni, til að fara með málefni sem samningur þessi fjallar um. Svæðisstofnanir um samvinnu skulu greina, í skjölum sínum um formlega staðfestingu eða aðild, frá valdmörkum sínum með tilliti til málefna sem samningur þessi fjallar um. Þær skulu síðar meir tilkynna vörsluaðila um hverja þá breytingu sem verða kann á valdheimildum þeirra og skiptir máli.
     2.      Vísanir til „aðildarríkja“ í samningi þessum eiga við slíkar stofnanir eins langt og valdheimildir þeirra ná.
     3.      Að því er varðar 1. mgr. 45. gr. og 2. og 3. mgr. 47. gr. samnings þessa skal eigi telja með skjöl sem svæðisstofnun um samvinnu afhendir til vörslu.
     4.      Svæðisstofnanir um samvinnu geta, í málum sem valdheimildir þeirra ná til, neytt atkvæðisréttar á þingi aðildarríkja með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja þeirra, sem eru aðilar að samningi þessum, segir til um. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríki hennar neytir atkvæðisréttar síns og öfugt.

45. gr.
Gildistaka.

     1.      Samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta skjalið um fullgildingu eða aðild hefur verið afhent til vörslu.
     2.      Gagnvart sérhverju ríki eða svæðisstofnun um samvinnu, sem fullgildir samning þennan, staðfestir hann formlega eða gerist aðili að honum eftir afhendingu tuttugasta skjalsins um slíka athöfn til vörslu, skal samningurinn öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki eða slík stofnun hefur afhent viðkomandi skjal sitt til vörslu.

46. gr.
Fyrirvarar.

     1.      Óheimilt er að gera fyrirvara sem eru ósamrýmanlegar markmiðum og tilgangi samnings þessa.
     2.      Heimilt er að draga fyrirvara til baka hvenær sem er.

47. gr.
Breytingar.

     1.      Sérhvert aðildarríki getur lagt fram breytingartillögu við samning þennan og sent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda aðildarríkjunum allar breytingartillögur, ásamt beiðni um að honum verði tilkynnt hvort þau séu því meðmælt að haldið verði þing aðildarríkja í því skyni að fjalla um þær og afgreiða. Komi í ljós, innan fjögurra mánaða frá því að aðalframkvæmdastjórinn sendir slíkar tillögur, að minnst þriðjungur aðildarríkjanna sé meðmæltur þinghaldi skal aðalframkvæmdastjórinn kalla þingið saman á vegum Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sérhverja breytingartillögu, sem er samþykkt með tveimur þriðju hluta atkvæða þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa sem eru viðstaddir og greiða atkvæði, til samþykktar og í framhaldi af því öllum aðildarríkjum til staðfestingar.
     2.      Breyting, sem er innleidd og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda samningsríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt. Eftir það öðlast breytingin gildi gagnvart hvaða aðildarríki sem er á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um staðfestingu til vörslu. Breyting er aðeins bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana.
     3.      Breyting, sem er innleidd og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar og varðar 34., 38., 39. og 40. gr. einvörðungu, skal, ákveði þing aðildarríkja það einróma, öðlast gildi gagnvart öllum aðildarríkjum á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda aðildarríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt.

48. gr.
Úrsögn.

    Aðildarríki getur sagt sig frá samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Úrsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.

49. gr.
Aðgengilegt form.

    Texti samnings þessa skal liggja frammi í aðgengilegu formi.

50. gr.
Gildir textar.

    Textar samnings þessa á arabísku, kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spænsku eru jafngildir.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.

 

Gagnlegar greinar

Grein Brynhildar G. Flóvenz í Úlfljóti,  12. apríl 2019