Allir eiga rétt á menntun við hæfi og án aðgreiningar

Börn með sérstakar þarfir vegna fötlunar eiga rétt á menntun við hæfi í leik-og grunnskóla í sínu skólahverfi.

Börnin skulu fá þann stuðning sem þarf til að geta stundað nám í venjulegum bekkjardeildum með jafnöldrum sínum.

Fullorðnir einstaklingar með sérstakar þarfir sem vilja bæta menntun sína skulu eiga aðgang að menntun við hæfi.


Eitt af grundvallaratriðum almennra mannréttinda er rétturinn til menntunar og skólagöngu. Réttur foreldra til að velja börnum sínum heimaskóla til kennslu og þjálfunar við hæfi er ótvíræður samkvæmt 37. gr. grunnskólalaga.
Landssamtökin Þroskahjálp vilja að réttur þessi sé virtur og unnið markvisst að “einum skóla fyrir alla” á Íslandi.

Börn með fötlun eiga rétt á þjónustu sérmenntaðs starfsfólks og tryggja þarf náið samstarf fagfólks og foreldra.
Kennslan og þjálfun skal ætíð taka mið af þörfum barnsins sjálfs og námskrá aðlöguð einstaklingsbundnum forsendum hvers nemanda. Markmið í námi skulu markviss og mælanleg. Allt skólahúsnæði skal vera aðgengilegt fyrir fatlaða og tryggja þarf að aðstaða fyrir sérstuðning og þjálfun sé þar til staðar. Sérmenntaðir aðilar, svo sem þroskaþjálfar, sjúkraþjálfarar, talmeinafræðingar og iðjuþjálfar, skulu kallaðir til starfa við skólann eftir því sem nauðsyn krefur. Sérhver nemandi skal undantekningarlaust fá lögbundinn fjölda kennslustunda. Þess skal gætt að nauðsynleg þjálfun falli ekki niður þegar skólastarf liggur niðri.

Nemandi með sérstakar þarfir vegna fötlunar á rétt á námi með jafnöldrum sínum og að tilheyra ákveðinni bekkjardeild.

Gerð og útgáfa námsefnis fyrir fatlaða verði ávallt í stöðugri þróun og almennt námsefni aðlagað einstaklingum, einnig verði stöðugt unnið að rannsóknum og þróun í kennslu og þjálfun fatlaðra.

Nemendum með sérþarfir vegna fötlunar sé veittur stuðningur við hlið annarra ungmenna í framhaldsskólum og séráföngum innan þeirra. Einnig við starfsnám á vinnustöðum. Þessum nemendum þarf að sinna sérstaklega í sambandi við náms- og starfsval.

Við námslok skal það vera í verkahring skólans í samvinnu við þá sem bera ábyrgð á atvinnumálum fatlaðra að tengja nemendur við atvinnulífið og aðlaga þá að því.

Fólki með sérstakar þarfir vegna fötlunar standi til boða menntun á fullorðinsaldri og fái sömu fjárhagslegu forsendur til þess að sækja þetta nám og almennt gildir í atvinnulífinu.

Í grunnmenntun þeirra er starfa við almenna kennslu og uppeldisstörf á öllum skólastigum skal leggja sérstaka áherslu á kennsluaðferðir sem taki mið af þörfum allra nemenda.

Markviss fræðsla og ráðgjöf fyrir aðstandendur og forráðamenn fatlaðra nemenda skal ávallt vera til staðar.

Nemendum verði gefinn kostur á heildstæðu námi í beinu framhaldi af framhaldsskóla.
Ávallt sé í gangi jákvæð kynning á málefnum fatlaðra í skólum.

Ítarefni: