Allt fullorðið fólk á rétt á vinnu

Atvinna er mikilvægur þáttur í sjálfsmynd allra manna.

Fjölbreytt störf þurfa að vera í boði fyrir fólk sem býr við fötlun.

Veita skal þeim sem þess þurfa liðveislu á hinum almenna vinnumarkaði.

Allir hafa rétt til launa, aðildar að verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðum.


Landssamtökin Þroskahjálp stefna að því að tryggja skjólstæðingum sínum atvinnu og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna.

Vinna og þátttaka í atvinnulífi er öllum mikilvægt, einnig fólki sem af einhverjum ástæðum hefur minni starfsgetu en aðrir. Það eru mannréttindi að að eiga kost á vinnu.

Atvinna er sjálfsögð leið til að afla tekna, en er einnig vettvangur fyrir sköpunarþörf og er mikilvægur hluti sjálfsmyndar einstaklinga í nútímasamfélagi.

Fólk sem fötlunar sinnar vegna getur ekki unnið á rétt á þátttöku í sambærilegri tilgangsríkri starfsemi.

Fjölbreytt störf þurfa að vera til staðar og vinnumarkaðurinn taki fullt tillit til fatlaðra.

Lögð skal áhersla á að finna og skapa ný störf eða starfsþætti sem henta öllu fólki á almennum vinnumarkaði.

Fólki með fötlun skal veita liðveislu í starfi eftir þörfum til þess að tryggja bæði þeim og vinnustaðnum árangur af starfinu.

Atvinnumiðlun og atvinnuleit á vegum opinberra aðila ber að þjóna öllum, fötluðum sem ófötluðum og leggja þarf áherslu á að kynna aðstæður og möguleika þroskahamlaðra á vinnumarkaðnum fyrir atvinnurekendum og almenningi.

Landssamtökin Þroskahjálp telja að allir á vinnumarkaðnum skuli hafa sama rétt til launa og aðildar að verkalýðsfélögum.

Vernduð vinna skal fara fram innan almennra fyrirtækja t.d. við ákveðna verkþætti. Veita þarf fjármagni til fyrirtækja svo kosta megi breytingar á starfsaðstöðu og vegna annarra útgjalda er kunna að verða vegna vinnu fatlaðra.

Fara skal með launakjör og lífeyrismál á vernduðum vinnustöðum eins og á almennum vinnustöðum.

Ítarefni:

1.Í lögum og reglugerðum má hvorki mismuna fötluðum né hindra aðgang þeirra að vinnumarkaðnum.

2. Aðildarríkin skyldu með virkum hætti stuðla að því að fatlaðir geti aðlagast hinum almenna vinnumarkaði. Slíkum virkum stuðningi má hrinda í framkvæmd með ýmsum ráðstöfunum, svo sem verkmenntun, hvetjandi kvótakerfum, fráteknum eða tilgreindum stöðum, lánum eða styrkjum handa litlum fyrirtækjum, samningum um einkarétt eða forgangsrétt til framleiðslu, skattaívilnunum, sérstökum samningum eða annarri tæknilegri eða fjárhagslegri aðstoð við fyrritæki sem ráða fatlaða til vinnu. Aðildarríkin skyldu einnig hvetja atvinnurekendur til að gera eðlilegar ráðstafanir til að aðlaga vinnustaðinn þörfum fatlaðra.

3. Á framkvæmaáætlunum aðildarríkjanna skyldu vera ákvæði um:

a. Ráðstafanir til að hanna og aðlaga vinnustaði og húsnæði með þeim hætti að það sé aðgengilegt fyrir fólk sem haldið er hvers konar fötlun.

b.Stuðningi við beitingu nýrrar tækni og þróun og framleiðslu hjálpartækja, áhalda og búnaðar, svo og ráðstafana til að auðvelda fötluðum aðgengi að slíkum tækjum og búnaði í því skyni að gera þeim kleift að fá vinnu og halda henni.

c. Að sjá fyrir viðeigandi þjálfun, atvinnumiðlun og áframhaldandi stuðningi, svo sem persónulegri þjónustu og túlkaþjónustu.

4. Aðildarríkin skyldu hafa frumkvæði að og styðja kynningarátak meðal almennings í því skyni að kveða niður neikvæða afstöðu gagnvart fötluðum og fordóma í þeirra garð á vinnumarkaðnum.

5. Sem atvinnurekendur skyldu aðildarríkin stuðla að hagstæðum aðstæðum svo að unnt sé að ráða fatlaða til starfa í opinbera geiranum.

6. Aðildarríkin, samtök launafólks og atvinnurekendur skyldu vinna saman til að tryggja sanngjarna stefnu hvað snertir mannaráðningar og stöðuhækkanir, vinnuskilyrði, launataxta, ráðstafanir til að bæta aðstæður við vinnu í því skyni að koma í veg fyrir slys og heilsutjón, svo og aðgerðir í því skyni að endurhæfa starfsmenn sem hafa orðið fyrir slysum eða öðru heilsutjóni við vinnu.

7.  Markmiðið skyldi ávallt vera að fatlaðir fái atvinnu á hinum almenna vinnumarkaði. Ef ekki reynist unnt að fullnægja þörfum tiltekins hóps fatlaðra á hinum almenna vinnumarkaði kemur til greina að setja upp litlar einingar verndaðra vinnustaða eða vinnustaða sem njóta tiltekins stuðnings. Miklu máli skiptir að gæði slíkra áætlana séu metin eftir því hvort þær eru fullnægjandi og stuðli að tengslum við atvinnulífið svo að þær veiti fötluðum möguleika á að fá vinnu á almennum vinnumarkaði.

8. Ráðstafanir skyldu gerðar til að gera fötluðum kleift að taka þátt í þjálfunar- og starfsáætlunum einkafyrirtækja og annarra slíkra aðila.

9. Aðildarríkin, samtök launafólks og atvinnurekendur skyldu hafa samvinnu við samtök fatlaðra um allar ráðstafanir sem miða að því að skapa möguleika á þjálfun og atvinnu, þ.m.t. sveigjanlegur vinnutími, hlutastörf, vinnuskipting, sjálfstæð atvinnustarfsemi ásamt aðstoð við fatlaða.