Landssamtökin Þroskahjálp hafa tekið saman minnisblað um aðstæður, þarfir og réttindi fatlaðs fólks á vinnumarkaði og það sem kallast viðeigandi aðlögun. Í minnisblaðinu er farið yfir hvað segir í lögunum, en einnig settar fram raunveruleg dæmi sem nýtist til þess að atvinnurekendur geti staðið við skyldur sínar.
Mismunun fólks á grundvelli fötlunar og/eða skertrar starfgetu er bönnuð samkvæmt lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þá er einnig fjallað um réttindi fatlaðs fólks til stuðnings við atvinnu í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Hvað er viðeigandi aðlögun?
Viðeigandi aðlögun er einstaklingsbundinn réttur þess fatlaða einstaklings sem hlut á að máli hverju sinni og ræðst af einstaklingsbundnum þörfum hans. Skylt er að veita viðeigandi aðlögun frá þeim tíma sem fatlaður einstaklingur þarf aðgang að aðstæðum eða umhverfi sem ekki er aðgengilegt fyrir hann. Skylda til viðeigandi aðlögunar er til staðar þó að fatlaður einstaklingur sem á hlut að máli hafi ekki óskað eftir henni. Hvernig viðeigandi aðlögun er veitt á að ákveða og framkvæma í samráði við þann fatlaðra einstakling sem í hlut á.
Viðeigandi aðlögun er algjör forsenda þess að fatlað fólk og/eða fólk með skerta starfsgetu eigi raunhæfan möguleika á að njóta jafnréttis og jafnra tækifæra á vinnumarkaði, eins og það á að njóta samkvæmt íslenskum lögum og fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Ef viðeigandi aðlögun er ekki veitt þegar við á, telst það vera mismunun á grundvelli fötlunar. Það er alvarlegt brot gegn íslenskum lögum og alþjóðalega viðurkenndum mannréttindum.
Smelltu hér til að opna minnisblað Þroskahjálpar um fatlað fólk á vinnumarkaði.