Umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar og Þroskahjálpar um breytingar á réttindagæslulögum (réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn)

Umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar og Þroskahjálpar um breytingar á réttindagæslulögum (réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn)

15. mars 2024

Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp vilja á þessu stigi koma eftirfarandi ábendingum og athugsemdum á framfæri við frumvarpsdrögin.

Í lokamálslið 4. gr. frumvarpsdraganna segir:

Sýslumaður getur einnig fellt úr gildi samkomulag telji hann persónulegan talsmann ekki gegna skyldum sínum gagnvart hinum fatlaða einstaklingi, hann hafi gerst brotlegur í starfi eða uppfylli ekki lengur skilyrði skv. 2. mgr. 7. gr.

Hér vaknar sú spurning hvort rétt sé að nota hugtakið starf um hlutverk / verkefni persónulegra talsmanna, m.a. í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að greidd séu laun fyrir það.

Sama athugasemd á við um 5. gr. frumvarpsdraganna þar sem hugtakið starf er einnig notað.

Samtökin leggja áherslu á að mikilvægt er að persónulegur talsmaður hafi aðgang að fleiri en einum reikningi.

Þá er bent á að mögulega hafa aðstandendur fatlaðra einstaklinga ekki val um hvort þeir vilja vera persónulegir talsmenn þeirra þar sem ekki eru neinir aðrir sem standa nærri fötluðum einstaklingi, sem geta eða vilja taka það hlutverk að sér, án þess að fá greitt fyrir það.

Samtökin árétta sérstaklega að bráðnauðsynlegt er að sýslumenn og hlutaðeigandi starfsfólk sýslumannsembætta fái mjög góða fræðslu um aðstæður, þarfir og réttindi fatlaðs fólks, þ.m.t viðeigandi aðlögunar og hvað í því felst, ef ábyrgð á eftirliti með persónulegum talsmönnum flyst til sýslumanna.
Þá vilja samtökin koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.

Veigamikil rök virðast vera fyrir því að réttarverndin, sem er tiltekin í III. kafla réttindagæslulaganna verði felld úr lögunum og aðeins tiltekin í einum lögum, þ.e. þeim sem munu eiga við um Mannréttindastofnun Íslands.

Einnig sýnist rétt að skoðað verði hvort ekki sé rétt að tiltekið verði í lögunum að réttindagæslumenn hafi ekki hlutverk að gerð persónulegra talsmannasamninga.  Í þessu samhengi þarf að líta til þess að réttindagæslulögin eru að stofni til 13 ára gömul. Umhverfið hvað varðar lög, reglur og mannréttindaskuldbindingar sem þýðingu hafa í þessu sambandi sem og hvað varðar stofnanir sem hlutverk hafa sem skiptir máli, hefur breyst mikið. Lýsingin á hlutverki réttindagæslumanna í III. kafla laganna er því um margt úrelt, auk þess að vera nokkuð óljós og afmarkar hlutverk og ábyrgð réttindagæslumanna ekki nægilega vel, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið í réttar- og stofnanaumhverfi, sbr. meðal annars það sem að framan segir varðandi það.

Þá telja samtökin nauðsynlegt að skoðað verði hvort vel fari á því að fela réttindagæslumönnum það hlutverk í samkomulagi við persónulega talsmenn, sem þeim er nú gert samkvæmt IV. kafla réttindagæslulaganna og hvort það fyrirkomulag standist ef þeir flytjast til sjálfstæðrar og óháðrar mannréttindastofnunar eins og gert er ráð fyrir samkvæmt frumvarpi um Mannréttindastofnun Íslands, sem er nú til meðferðar á Alþingi.

Samtökin vilja enn ítreka og árétta eftirfarandi áherslur sínar og sjónarmið varðandi sjálfstæða og óháða mannréttindastofnun, almennt og sérstaklega m.t.t. réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Samtökin fagna og styðja eindregið fyrirætlanir um setningu laga um stofnun Mannréttindastofnunar Íslands, sbr. frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands (Þingskjal 242 — 239. mál), sem forsætisráðherra lagði fram á Alþingi 26. september 2023. Frumvarpinu var vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 9. október 2023 og hefur frumvarpið síðan verið þar til meðferðar. Samtökin vísa til umsagnar sinnar um frumvarpið frá 25. október 2023 sem nálgast má á hlekk að neðan.

https://www.althingi.is/altext/erindi/154/154-466.pdf

Samtökin skora hér með á ríkisstjórnina, Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hraða meðferð og afgreiðslu frumvarpsins, eins og nokkur kostur er og benda í því sambandi m.a. á að þjóðréttarleg skylda til að setja á fót sjálfstæða og óháða mannréttindastofnun, sem uppfyllir Parísar-meginreglurnar (e. Paris Principles), féll á íslenska ríkið fyrir meira en 7 árum, þ.e. við fullgildingu þess á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016.

Þá minna samtökin ríkisstjórnina og alþingismenn stjórnarflokkanna á að í Sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir orðrétt:

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun.

Frekari dráttur á að íslenska ríkisstjórnin standi við þessa mikilvægu þjóðréttarlegu skuldbindingu sína og fyrirheit sín varðandi það gagnvart fötluðu fólki er fullkomlega óásættanleg, að mati samtakanna.

Samtökin fagna því sérstaklega að í frumvarpi um Mannréttindastofnun Íslands skuli gert ráð fyrir að réttindagæsla fyrir fatlað fólk falli undir mannréttindastofnunina. Það hefur frá stofnun réttindagæslunnar með lögum nr. 88/2011 verið ljóst að réttindagæslan á alls ekki heima undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Sú staðsetning hennar í stjórnkerfinu samræmist ekki þeim kröfum, sem gera verður til réttarríkis til að eftirlit af þessu tagi sé sem óháðast stjórnvöldum, sem eftirlitið beinist oft að, beint eða óbeint. Það fyrirkomulag sem nú er að réttindagæslumenn lúti yfirstjórn ráðherra og að réttindavakt ráðuneytisins fylgist með störfum þeirra, sbr. lög nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, með síðari breytingum, er vægast sagt mjög vafasamt m.t.t. hlutverks og ábyrgðar réttindagæslumanna gagnvart fötluðu fólki.

Samtökin skora því á félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að beita sér fyrir að réttindagæslunni verði eins fljótt og nokkur kostur er komið undir sjálfstæða mannréttindastofnun. Samtökin telja að það megi vel gera mjög fljótt, þar sem skipulag og verkefni réttindagæslunnar er með þeim hætti að það krefst alls ekki flókinna eða tímafrekra breytinga á lögum, reglum og/eða stjórnkerfi.

Ekki verður undan því vikist að koma því hér á framfæri að Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp hafa af því verulegar áhyggjur að réttindagæsla fyrir fatlað fólks hefur alls ekki verið sinnt sem skyldi undanfarin ár. Það hefur legið fyrir í nokkur ár, að fatlað fólk nýtur ekki þeirrar réttindagæslu sem lög kveða á um og virðist áhugaleysi hlutaðeigandi stjórnvalda vera talsvert þegar kemur að úrbótum. Þannig hefur réttindagæsla víða um land verið óstarfhæf vegna veikinda starfsfólks, sem einkum má rekja til óhóflegs álags sem fyrst og fremst má rekja til skilningsleysis á stöðu fatlaðs fólks og hvað lögbundin réttindagæsla þýðir í raun og veru.

Þá vísa samtökin til þess umboðsmaður Alþingis hefur nýlega ákveðið að taka mál réttindagæslu fyrir fatlað fólk til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. bréf hans til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 15. febrúar sl. Í bréfi umboðsmanns segir m.a.:

Með bréfi þessu er óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort núverandi fyrirkomulag eða framkvæmd réttindagæslu fatlaðs fólks sé í samræmi við efni og markmið fyrrgreindra laga um réttindagæslu. Séu brotalamir eða vandkvæði uppi við framkvæmd laganna er óskað nánari skýringa á því svo og hvort ráðuneytið hafi þegar eða hafi í hyggju að grípa tiI aðgerða af því tilefni.

Bréf umboðsmanns má nálgast á hlekk að neðan.

https://www.umbodsmadur.is/asset/10340/f148_fyrirsp-frn-150224.pdf

Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk eru að stofni til frá árinu 2011, með viðbót um bann við beitingu nauðungar frá árinu 2012. Lög þessi voru mikil réttarbót á sínum. Eins og kom fram og við mátti búast hefur tíminn og reynslan leitt í ljós ýmsa hnökra á lögum þessum og framkvæmd þeirra. Samtökin hafa því ítrekað hvatt hlutaðeigandi stjórnvöld til að láta fara fram vandaða endurskoðun á lögunum, í ljósi þeirra reynslu sem af þeim er fengin og m.t.t. meðal annnars þeirra atriða og sjónarmiða, sem rakin eru hér að framan. Það frumvarp sem hér til umfjöllunar er engan veginn sú endurskoðun á lögunum sem er bráðnauðsynleg og löngu tímabær.

Með vísan til þess sem að framan er rakið árétta samtökin enn að rétt og skylt sé að hraða stofnun Mannréttindastofnunar Íslands, eins og nokkur kostur, er og hefja markvissan undirbúning að flutningi réttindagæslu fyrir fatlað fólk undir þá stofnun.

Þá er mjög æskilegt að fá sem fyrst niðurstöðu í frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis á réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Við vandaða endurskoðun réttindagæslulaganna þarf m.a. að fara mjög gaumgæfilega yfir ákvæði þeirra m.t.t. þeirra skyldna, sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, m.a. og sérstaklega samkvæmt ákvæðum 12. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Jöfn viðurkenning fyrir lögum og líta jafnframt sérstaklega til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum (e. General Comment No 1), sem nefnd samkvæmt samningnum sendi frá sér árið 2014 um ákvæði 12. gr. hans.

Samtökin lýsa eindregum áhuga og vilja til samráðs við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið við það mikilvæga og mjög tímabæra verkefni og vísa í því sambandi m.a. til eftirfarandi ákvæða í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. 3. mgr. greinarinnar er svohljóðandi:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

33. gr. samningsins hefur yfirskriftina Framkvæmd og eftirlit innan lands og hljóðar svo:

  1. Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samnings þessa og taka tiltilhlýðilegrar umfjöllunar hvort koma skuli á eða tiltaka samræmingarkerfi innanstjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum á ólíkum sviðum og ólíkumstigum.
  2. Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda,treysta, tiltaka eða koma á innviðum, þar á meðal einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að styrkja, vernda og hafa eftirlit með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeimmeginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi þjóðbundinna mannréttindastofnana.
  3. Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Sigríður Gísladóttir, formaður Geðhjálpar

Nálgast má málið sem umsögnin á við hér