Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um breytingar á persónuverndarlögum
29. ágúst 2023
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks[1] árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nú í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans, með þátttöku allra ráðuneyta og Þroskahjálpar og fleiri réttinda- og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Meginmarkmið samningsins er að ryðja úr vegi þeim hindrunum í samfélaginu, sem koma í veg fyrir að fatlað fólk hafi raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, til jafns við aðra og án aðgreiningar.
4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...
Að neðan eru nokkrar greinar og ákvæði í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hafa eða kunna að hafa þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar.
5. gr.
Jafnrétti og bann við mismunun.
1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. (Feitletr. Þroskahj.)
Í 2. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Skilgreiningar segir:
Mismunun á grundvelli fötlunar merkir hvers konar greinarmun útilokun eða takmörkun á grundvelli fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi séu viðurkennd, þeirra sé notið eða þau séu nýtt, á jafnréttisgrundvelli, á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála, sem borgari eða á öðrum sviðum. Hugtakið tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, þ.m.t. þegar fötluðu fólki er neitað um viðeigandi aðlögun,
Viðeigandi aðlögun merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi, ... (Feitletr. og undirstr Þroskahj.)
22. gr.
Virðing fyrir einkalífi.
1. Engin fötluð manneskja skal, óháð búsetustað eða -formi, sæta ólögmætum afskiptum eða geðþótta afskiptum af einkalífi sínu, fjölskyldu, skriflegum samskiptum eða öðrum samskiptum eða ólögmætum árásum á æru sína og orðstír. Fatlað fólk á rétt á lagalegri vernd gegn slíkum afskiptum eða árásum.
2. Aðildarríkin skulu vernda trúnað um upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks til jafns við aðra.
12. gr.
Jöfn viðurkenning fyrir lögum.
1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk á rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem persónur að lögum.
2. Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.
3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir löghæfi sitt. ...
13. gr.
Aðgangur að réttinum.
1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
2. Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.
Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á dómsmálaráðuneytið að líta við undirbúning þeirrar lagsetningar sem hér er til umfjöllunar sérstaklega til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks og þeirra mannréttinda og verndar sem það á að njóta samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við ráðuneytið við það verkefni og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samningsins.
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér