Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (fyrirkomulag almennra íbúða)
6. mars 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.
Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa augljóslega mikla þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar, s.s. í 19. og 28. gr. samningsins.
í 19. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu, hljóðar svo:
Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi,
b) að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu,
c) að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þess.
5. almennu athugsemdir nefndar samkvæmt samningnum varðandi sjálfstætt líf, General comment No.5 on Article 19 - the right to live independently and be included in the community nálgast á heimasíðu nefndarinnar á hlekk að neðan.
https://www.ohchr.org/en/documents/general-comments-and-recommendations/general-comment-no5-article-19-right-live
Og í 28. grein samningsins, sem hefur yfirskriftina Viðunandi lifskjör og félagsleg vernd, segir:
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.
2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar á grundvelli fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, þar á meðal ráðstafanir:...
d) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera, ...
Landssamtökin Þroskahjálp reka óhagnaðardrifinn húsbyggingasjóð, sem byggir og kaupir íbúðir sem eru leigðar fötluðu fólki. Markmið sjóðsins er að greiða fyrir að sveitarfélög standi betur og fyrr við lagalegar skuldbindingar sínar um að sjá fötluðu fólki fyrir hentugu húsnæði fyrir leigugjald, sem það ræður við. Húsbyggingasjóður á nú og rekur um 90 íbúðir á nokkrum stöðum á landinu, sem leigðar eru fötluðu fólki samkvæmt ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga.
Samtökin telja mjög brýnt að gerðar verði breytingar á lögum um almennar íbúðir (stofnframlagakerfinu) án ástæðulausra tafa og vilja á þessu stigi koma eftirfarandi athugasemdum, tillögum og ábendingum á framfæri við ráðuneytið varðandi það en áskilja sér rétt til að koma frekari athugasemdum, ábendingum og tillögum á framfæri við ráðuneytið, aðgerðahóp um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum og úrbætur til lengri tíma og/eða Alþingi á síðari stigum.
Fatlað fólk á jafnan rétt og aðrir til friðhelgi einkalífs, að lifa sjálfstæðu lífi og að velja sér búsetu. Húsnæði spilar þar algjört lykilhlutverk. Huga verður að þáttum eins og samfélagi án aðgreiningar, aðgengismálum og að búseta fatlaðs fólks sé alls ekki stofnanavædd. Heimili þar sem virðing, óskir og þarfir húsráðanda eru í fyrirrúmi eru grundvallarskilyrði fyrir raunverulegum lífsgæðum. Herbergjasambýli samrýmast afar illa þessari hugmyndafræði og tók íslenska ríkið ákvörðun um að vinna að því að slíkum sambýlum skyldi í áföngum lokað strax árið 2010. Ljúka verður þeirri vinnu án frekri tafa.
Réttindi fatlaðs fólks til friðhelgi einkalífs, að lifa sjálfstæðu lífi og að velja sér búsetu eru tryggð í ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. það sem framan segir og með íslenskum lögum. Í 9. gr. laga 38/2018 segir:
Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.
Í 3. gr. reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk segir:
Sé þörf fyrir sérstakt húsnæði vegna sérstakra eða mikilla þjónustuþarfa fatlaðs fólks skal þjónustuaðili sem ber ábyrgð á þjónustunni tryggja að slíkt húsnæði sé til staðar.
Lagalegur réttur fatlaðs fólks til þess að hið opinbera tryggi uppbyggingu nægilegs og fullnægjandi húsnæðis fyrir þennan hóp er því mjög skýr, ótvíræður og ríkur.
Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, frá apríl 2022, kom fram að 486 einstaklingur voru þá á biðlistum eftir sértækri búsetu fyrir fatlað fólk. Samkvæmt áfangaskýrslu II, starfshóps um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk, sem skilað var í september 2024 var fjöldinn á þeim biðlistum 452. Ef áfram verður haldið að vinna á þessum biðlistum á sama hraða og verið hefur, verður hann ekki tæmdur fyrr en eftir rúm 30 ár, sem er að sjálfsögðu í fullkomnu ósamræmi við lagaleg réttindi þeirra sem í hlut eiga og lagalegar skyldur stjórnvalda gagnvart. Allmörg þeirra sem eru á þessum biðlistum hafa verið þar óforsvaranlega lengi, sem sést ágætlega á meðalaldri þeirra sem eru á biðlistum, en hann er 35 ár. Enn býr fjöldi fatlaðs fólks á herbergjasambýlum, 15 árum eftir að stjórnvöld sjálf settu sér markmið um að loka þess háttar búsetuúrræðum og þá búa um 50 fatlaðir einstaklingar undir 60 ára aldri á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Þörfin er því augljós og brýn, og hafa stjórnvöld viðurkennt þessa þörf, m.a. með samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga frá desember 2023 um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk, þar sem gert er ráð fyrir að unnið verði að gerð 7-10 ára áætlunar um að uppfylla þörf fatlaðs fólks fyrir sértæk húsnæðisúrræði.
Því miður er engin ástæða til bjartsýni um að þetta skortsástand í húsnæðismálum fatlaðs fólks muni lagast af sjálfu sér eða með tilstuðlan þeirra verkefna og kerfa sem hið opinbera nú starfrækir. Engin áætlun er í gangi, sem sérstaklega greiðir fyrir íbúðauppbyggingu fyrir fatlað fólk, ekkert lagaverk, umfram 4% viðbótarframlag inn í stofnframlagakerfinu vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og vegna íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum. Sveitarfélög og óhagnaðardrifin leigufélög geta sótt um þessi stofnframlög til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði fyrir fatlað fólk og eins og fyrr segir starfrækja Landssamtökin Þroskahjálp sérstakan húsbyggingasjóð, sem unnið hefur innan þessa stofnframlagakerfis síðustu ár og bæði keypt stakar íbúðir og reist íbúðakjarna og fengið til þess stofnframlög. Stofnframlagakerfið gerir hins vegar kröfu um að hvert verkefni fyrir sig sé sjálfbært í rekstri en jafnframt að leigjendur þurfi ekki að greiða húsaleigu, sem nemur meira en 25% af heildartekjum þeirra. Í núverandi fjármálaumhverfi (ekki síst m.t.t. vaxtastigs) og í ljósi þess hve örorkugreiðslur eru lágar og hafa dregist mikið aftur úr vísitölum er ramminn til þess að fjárfesta í leiguhúsnæði til handa fötluðu fólki innan stofnframlagakerfisins að verða svo þröngur að slíkum verkefnum er í raun sjálfhætt, nema annað hvort leigufélögin eða sveitarfélögin komi inn í verkefnin með aukið eigið fé. Það fjármagn sem eyrnamerkt hefur verið stofnframlögum hefur í gegnum tíðina ekki alltaf verið fullnýtt og augljóst er að mjög brýnt er að ráðast í úrbætur. Þá höfum við hjá Þroskahjálp ástæðu til að ætla að sá hnútur sem hefur verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks virki því miður letjandi á metnað sveitarfélaga til að ráðast í uppbyggingu á húsnæði (og þar með þjónustu) fyrir fatlað fólk – metnað sem annars er víðast hvar talsverður og virðingarverður.
Með vísan til þess sem að framan er rakið vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi tillögum á framfæri á þessu stigi:
• Hækka sérstakt viðbótarstofnframlag ríkisins vegna íbúðarhúsnæðis ætlað fötluðu fólki og öryrkjum úr 4% í a.m.k. 10% - en líklega þarf að fara hærra til að það hafi nægileg áhrif.
• HMS bjóði lán undir markaðsvöxtum til verkefna vegna íbúðarhúsnæðis, sem ætlað er fötluðu fólki og öryrkjum. Í félagslega húsnæðiskerfinu sem lagt var niður á tíunda áratug síðustu aldar bauðst óhagnaðardrifnum leigufélögum lán á 1% vöxtum. Enn þann dag í dag nýtur fatlað fólk, sem býr í íbúðum sem fjármagnaðar voru með þeim lánskjörum, góðs af því kerfi. Í dag býður HMS verðtryggð langtímalán á u.þ.b. 4% vöxtum.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs og samstarfs við hlutaðeigandi stjórnvöld við þau mikilvægu verkefni sem hér eru til umfjöllunar og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir fundi með félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og aðgerðahópi um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum og úrbætur til lengri tíma, sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skipað, til að gera betur grein fyrir afstöðu samtakanna til þeirra brýnu réttindamála og verkefna sem hér eru til umfjöllunar.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, skrifstofustjóri Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Nálgast má málið sem umsögnin á við hér