Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu o.fl.), 922. mál
9. maí 2023
Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Samtökin skiluðu umsögn um drög að frumvarpinu 10. mars 2023 og fögnuðu samtökin því að leggja skuli áherslu á snemmtækan stuðning og samþættingu á þjónustu á öllum skólastigum sem er liður í að styrkja umgjörð um þjónustu í þágu barna og stuðla að því að öll börn og foreldrar sem þurfa á að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.
Í 5. kafla greinargerðar með frumvarpi því sem hér til umsagnar, þar sem fjallað er um samráð kemur fram að Landssamtökin Þroskahjálp hafi gert athugasemd við að í frumvarpsdrögunum væri eingöngu fjallað um nemendur upp að 18 ára aldri.
Með þessari athugasemd var Þroskahjálp að vekja athygli á þeirr staðreynd að þrátt fyrir að gerð sé sérstök þjónustuáætlun þegar barnið nær 18 ára aldri til að stuðla að samfellu í þjónustunni þegar barnið nær fullorðinsaldri hefur fatlað fólk, 18 ára og eldra, ekki aðgang að fjölþættri þjónustu/þjónustuteymi til þess að þessi þjónustuáætlun, sem gerð er fyrir fullorðinsaldur, skili því sem henni ber og er ætlað að gera.
Landssamtökin Þroskahjálp ítreka og árétta miklar áhyggjur af þessum skorti á nauðsynlegri þjónustu fyrir fatlað fólk.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna
Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.