Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nú í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
4. gr. samningsins hefur yfriskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
5 . gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun. Þar segir m.a.:
Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
29. gr. samningsins hefur yfirskriftina Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi. Þar segir:
Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
a) tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa að eigin frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosið, þar á meðal með því:
i. að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð,
ii. að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án ógnana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með árangursríkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,
iii. að tryggja að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklings að eigin vali við að greiða atkvæði, ... (Feitletr. Þroskahj.)
Með vísan til framangreindra ákvæða í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks vilja samtökin koma við eftirfarandi á framfæri varðandi þau reglugerðardrög sem hér eru til umsagnar.
Í 8. gr. er fjallað um kjörstaði. Þar er tekið fram í f. lið að leitast skuli við að opna kjördeildir inn á heilbrigðisstofnunum og stofnunum fyrir fatlað fólk þar sem fólk sem á erfitt um vik um að ferðast geti nýtt atkvæðarétt sinn, og er það vel. Hins vegar er hér fullt tilefni til að setja í reglugerðina ákvæði um að hinir almennu kjörstaðir skuli hafa gott aðgengi m.t.t. hjólastóla og annarra hjálpartækja, og stuðla þannig að því að hreyfihamlað fólk og kjósendur með aðrar sérstakar aðgengisþarfir geti kosið á almennum kjörstöðum eins og aðrir íbúar, sbr. ofangreind ákvæði samnings SÞ um skýlausan rétt fatlaðs fólks til að njóta stjórnmálalegra réttinda án aðgreiningar og til jafns við aðra, sbr. og hugmyndafræði um samfélag án aðgreiningar og viðeigandi aðlögun sem eru rauðir þræðir í samningnum öllum.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við innviðaráðuneytið um þau mál sem hér eru til umfjöllunar og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samningsins
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér