Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (fjarheilbrigðisþjónusta), 728. mál
18. mars 2024
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og nú er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar,
m.a. í 25 gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Heilbrigði.
Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu. (Feitletr. Þroskahj.)
Samtökin árétta og ítreka að ekki geta allir nýtt sér fjarheilbrigðisþjónustu og því er nauðsynlegt miklvægt er að skilgreina öruggar leiðir fyrir þá aðila til að fá þjónustuna. Hvað með hópa sem ekki geta notað hendur? Þá sem ekki tala? Ekki allir eiga rafræn skilríki, reynslan sýnir að spjallvélmenni ráða ekki endilega vel við að svara spurningum sem snúa að þörfum fatlaðs fólk, mikilvægt er að ekki þurfi flókinn eða sérhæfðan tæknibúnað eða tölvukunnáttu til að fá þjónustuna. Við veltum líka fyrir okkur hvað gerist þegar gervigreind verður innleidd í þessa þjónustu og hvaða áhrif það mun hafa á fatlað fólk. Það er ekkert
fjallað um nauðsyn þess að aðlaga lausnir að þörfum notenda.
Í mati á áhrifum er þess getið að frumvarpið eigi ekki að mismuna á grundvelli kyns eða hafa mismunandi áhrif á stöðu kynja. Hins vegar er ekki minnst á aðra jaðarsetta hópa, s.s. fatlað fólk eða fólk af erlendum uppruna.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Nálgast má málið sem umsögnin á við hér