Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um skipulagsmál
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks[1] árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nú í gamgi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans, með þátttöku allra ráðuneyta og Þroskahjálpar og fleiri réttinda- og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Meginmarkmið samningsins er að ryðja úr vegi þeim hindrunum í samfélaginu, sem koma í veg fyrir að fatlað fólk hafi raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, til jafns við aðra og án aðgreiningar.
4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ... (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)
Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks eru mörg ákvæði sem geta haft verulega þýðingu við þá stefnumótun sem hér er til umsagnar og innviðaráðuneytinu er því skylt að líta til. Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við innviðaráðuneytið við það verkefni og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samningsins. Samtökin óska því eftir fundi með innviðaráðuneytinu til að fara yfir það sem um er fjallað í þessari umsögn.
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.