Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 49. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og lýsa eindregnum stuðningi við hana

Með valfrjálsa viðaukanum opnast kæruleið fyrir fatlað fólk, sem telur að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber að fá samkvæmt samningnum og hafa fullreynt að ná fram rétti sínum innan íslenska stjórn- og dómskerfisins, án árangurs. Með fullgildingu valfrjálsa viðaukans verður virkara aðhald um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks eykst og mannréttindi þess verða betur varin. 101 ríki hafa nú þegar fullgilt viðaukann.

Alþingi samþykkti árið 2016 þingsályktunartillögu um að valkvæður viðauki við samning SÞ skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017. Það hefur nú fimm árum síðar ekki enn verið gert. Þessi framkvæmd eða öllu heldur framkvæmdarleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda lýsir ekki aðeins áhugaleysi um vernd mannréttinda fatlaðs fólks heldur einnig miklu virðingarleysi gagnvart vilja Alþingis.

Landssamtökin Þroskahjálp skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að ljúka nú, án frekar tafa, því mikilvæga verkefni að fullgilda viðaukann, eins og Alþingi samþykkti að gera skyldi fyrir lok árs 2017.

Samtökin óska eindregið eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi þingsályktunartillöguna, sem hér er til umsagnar.

 

Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér.