Hvað með okkur? Vel heppnað málþing

Þátttakendur í málþinginu „Hvað með okkur?“ sem var haldið föstudaginn 11. apríl á Hilton Nordica Reykjavík virðast flestir sammála um að þetta hafi verið tímamótaviðburður.

Á málþinginu var fatlað fólk í aðalhlutverki.
Ófatlað fólk kom til að spyrja spurninga og hlusta, og það var margt mikilvægt sem kom fram.

Málþingið var einnig í streymi.


Horfa á streymi:

 



Jón Gnarr átti opnunarávarpið og talaði meðal annars um mikilvægi aðgengis, ekki bara að komast leiðar sinnar heldur mikilvægi þess að fatlað fólk hefði aðgengi að menningu, félagslífi og bara öllu samfélaginu.


Mynd frá málþinginu Hvað með okkur sem Þroskahjálp hélt með diplómanemum í Háskóla Íslands. Á myndinni eru teikningar sem voru teiknaðar á málþinginu

Teiknararnir Katja Helgadóttir og Vilmundur Gunnarsson
teiknuðu það sem kom fram á málþinginu

 

Það er kominn tími til að fólk hlusti á okkur!

Fabiana Morais, talskona fatlaðs fólks hjá Þroskahjálp, hélt þrumuræðu og benti meðal annars á að vinnustaðir þurfi að vera miklu opnari fyrir fjölbreytileika. Ófatlað fólk verði að hlusta betur á fatlað fólk því þau séu sérfræðingarnir.

„Oftast kemur fatlað fólk á málþing og þarf bara að hlusta á það sem ófatlað fólk segir,“ benti Fabiana á og bætti við að á þessu málþingi ætlum við að breyta þessu.

„Við ætlum að tala mest og aðrir eiga að hlusta!“ og tók salurinn heilshugar undir það.


Mynd af þáttakendum á málþinginu Hvað með okkur sem Þroskahjálp hélt með diplómanemum í Háskóla Íslands. Víð mynd yfir fullan sal af fólki á Hilton hótelinu

Salurinn var þétt setinn og stemningin frábær

 

 

Skólaganga mín

Jóhanna Brynja Ólafsdóttir, útskriftarnemi í Diplómanámi HÍ, sagði frá skólagöngu sinni. Þar kom m.a. fram að í framhaldsskóla hafi verið gerðar of litlar kröfur til hennar og hversu erfiðlega henni gekk að fá meira krefjandi námsefni.

 

Sófaspjall 1: Gulla reglan (samskipti)

„Ég hef slæma reynslu af því að vera fullorðin,“ sagði Brynja Diljá Guðmundsdóttir, útskriftarnemi í Diplómanámi HÍ, í spjalli við Nóa Gunnarsson, nema á fyrsta ári í Diplómanáminu.

„Það er komið fram við mig eins og ég sé krakki,“ bætti hún við og lýsti því hvernig ófatlað fólk endurtekur stundum sömu orðin mjög oft og skipa henni jafnvel fyrir. Brynja sat í sófaspjalli ásamt útskriftarfélögum sínum úr Diplómanáminu, þeim Orra Brynjarssyni og Fanney Rún Jóhannsdóttur. Fanney benti á að það þurfi meiri upplýsingagjöf fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði og Orri talaði um mikilvægi þess að ófatlað fólk tali eðlilega við fatlað fólk.

 

Sófaspjall 2: Mennt er máttur

Fabiana Morais og Helena Júlía Steinarsdóttir, útskriftarnemi í Diplómanámi HÍ, sátu í spjalli við Önnu Láru Steindal, framkvæmdastjóra Þroskahjálpar, um menntamál og vildu miklu fjölbreyttara nám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun. Þeim finnst óréttlátt að aðrir ákveði fyrir fatlað fólk hvað það geti lært. Fatlað fólk verði að fá að ákveða sjálft hvað þau læra í háskóla.

 

Sófaspjall 3: Vinnan göfgar manninn

Anna Klara Georgsdóttir, sérfræðingur í félags– og húsnæðismálaráðuneytinu, spurði þau Jóhönnu Brynju Ólafsdóttur og Gunnar Snæberg Jennýjarson, útskriftarnema úr Diplómanámi HÍ, og Ólaf Snævar Aðalsteinsson, frístundaleiðbeinanda og athafnamann, út í atvinnumál. Þau vildu stórauka fræðslu og ekki síst til atvinnurekenda.

Ólafur benti á hvað það gæti skipt miklu máli ef fatlað fólk hefði einhvers konar leiðbeinanda eða mentor á vinnustað. Einhvern sem hægt væri að treysta í vinnunni og ekki síður mikilvægi þess að þér finnist þú vera velkominn þar. Ef fleira fatlað fólk væri væri á vinnumarkaðinum yrði það síður fyrir áreiti því ófatlað fólk spyrji stundum spurninga sem séu of nærgöngular.

 

Sófaspjall 4: Þarf alltaf að vera aðgengi?


Mynd af þáttakendum á málþinginu Hvað með okkur sem Þroskahjálp hélt með diplómanemum í Háskóla Íslands. Skytturnar þrjár, þeir Kristján, Ívar og Sveinbjörn eru á myndinni og Ívar að tala í hljóðnema.

Kristján Vignir Hjálmarsson, Sveinbjörn Benedikt Eggertsson
og Ívar Friðþjófsson, sérfræðingar í aðgengismálum


Þeir kalla sig Skytturnar þrjár, þeir Ívar Friðþjófsson, Sveinbjörn Benedikt Eggertsson og Kristján Vignir Hjálmarsson. Ívar er útskriftarnemi í Diplómanámi HÍ, Sveinbjörn er sérfræðingur í aðgengismálum og varaformaður Átaks, og Kristján er sérfræðingur í aðgengismálum.

Þeir fóru á kostum í spjalli um aðgengismál við Stefán Vilbergsson, verkefnastjóra hjá ÖBÍ og starfsmann í aðgengishópi ÖBÍ. Ívar benti meðal annars á óréttlætið sem fælist í því að geta ekki tekið skyndiákvörðun um að hitta vini á kaffihúsi því akstursþjónustu þurfi alltaf að panta með tveggja daga fyrirvara.

Þeir töluðu mikið um skortinn á aðgengi að djamminu. Flestir staðir væru ómögulegir fyrir fólk í hjólastólum og salernið sé oftar en ekki í kjallara og kannski bara hringstigi niður.

„Ætlar fólk að bera okkur?“ spurði Sveinbjörn hlæjandi og Kristján stakk upp á að Hjalti Ursus þyrfti að vera til taks til að bera fólk milli hæða.

„Burtu með þetta friðaða dót!“ bætti Sveinbjörn við og vísaði til þess að ekki mætti hrófla við gömlum húsum.

 


Mynd af Nice Guys þar sem þeir eru að dansa og skemmta í partíinu eftir málþingið Hvað með okkur sem Þroskahjálp hélt með námsbrautinni Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun í Háskóla Íslands

Félagarnir í Nice Guys

 

Eftir málþingið var haldið partí þar sem Nice Guys hófu leikinn og héldu uppi frábærri stemningu.

Því næst klæddi Ólafur Snævar sig í glimmergallann og heillaði áhorfendur með mjög skemmtilegu dansatriði.
Í kjölfarið var karaokí og gríðarmikil stemning.

 

Mynd af málþingsstjórunum Heklu Björk og Steinunni Ásu ásamt rektor Háskóla Íslands,Silju Báru Ómarsdótturá málþinginu Hvað með okkur sem Þroskahjálp hélt með diplómanemum í Háskóla Íslands.

Hekla Björk Hólmarsdóttir,  útskriftarnemi í Diplómanámi HÍ,
Silja Bára Ómarsdóttir, rektor HÍ,
og Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, fjölmiðlakona


Hekla Björk Hólmarsdóttir, útskriftarnemi í Diplómanámi HÍ, og Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, fjölmiðlakona, voru málþingsstjórar. 

Málþingið var haldið af Þroskahjálp í samvinnu við námsbrautina Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun hjá Háskóla Íslands.