Anna Lára Steindal hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Anna Lára hefur starfað hjá samtökunum frá árinu 2019 sem verkefnastjóri ýmissa verkefna, svo sem ungmennaráðs, fatlaðra barna og fatlaðs fólks af erlendum uppruna. Þá hefur hún á síðustu árum leitt samvinnuverkefni Þroskahjálpar í Malaví og verkefni um samspil tækni og réttinda fatlaðs fólks auk þess að sinna víðtæku samráði fyrir hönd samtakanna við stjórnvöld, önnur réttindasamtök og fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Anna Lára þekkir því vel starfsemina, hugmyndafræðina, tækifærin og áskoranirnar í baráttu Þroskahjálpar fyrir bættum hag og réttindum fatlaðs fólks.
Anna Lára hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði mannréttindamála, m.a. unnið að innflytjenda- og flóttamannamálum á vettvangi Rauða krossins, starfað sem verkefnisstjóri mannréttindamála hjá Akraneskaupstað og sinn fjölbreyttum verkefnum sem fyrirlesari og kennari í fullorðinsfræðslu, einkum á sviði jafnra tækifæra í samfélagi, sjálfbærni og fjölbreytileika. Anna Lára er með meistaragráðu í heimspeki, með áherslu á réttindi, siðfræði og fjölbreytileika. Árið 2019 lauk hún diplómanámi um sjálfbærni og sjálfbærnikennslu frá The Earth Charter Education Center sem hefur aðsetur við Friðarháskólann í Kosta Ríka.
Anna Lára hefur þegar hafið störf sem framkvæmdastjóri. Hún tekur við starfinu af Árna Múla Jónassyni, sem óskaði eftir að hætta sem framkvæmdastjóri og fara í hlutastarf sem lögfræðingur samtakanna. Árni hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra frá árinu 2015 við góðan orðstír. Á þeim tæpu 10 árum sem Árni Múli starfaði sem framkvæmdastjóri, hefur starfsemi Þroskahjálpar vaxið mjög og styrkst. Árni Múli fer heldur ekki langt, en hann mun starfa áfram hjá samtökunum sem sérfræðingur og lögfræðingur, en mikill hagur er af því að hans sérfræðiþekkingar á sviði mannréttinda og lögfræði njóti enn við innan samtakanna.
Þá hefur Fabiana Morais verið ráðin til Þroskahjálpar sem talskona fatlaðs fólks, en hún hafði starfað stuttlega á skrifstofu samtakanna sem starfsnemi fyrir ári síðan, og Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, sem áður starfaði sem verkefnastjóri hjá Þroskahjálp, hefur tekið við sem skrifstofustjóri samtakanna.