Fabiana Morais hefur hafið störf á skrifstofu Þroskahjálpar sem talskona fólks með þroskahömlun og ráðgjafi í málefnum ungs fatlaðs fólks og fatlaðs fólks af erlendum uppruna.
Sjálf þekkir hún af eigin raun hvernig það er að fóta sig í nýjum veruleika á Íslandi, en hún flutti hingað til lands frá Portúgal ásamt fjölskyldu sinni þegar hún var átta ára.
Fabiana hefur brennandi áhuga á mannréttindamálum og hefur lokið diplómanámi í Háskóla Íslands, en hún kom einmitt í starfsnám hjá Þroskahjálp í náminu. Í starfi sínu hjá Þroskahjálp leggur Fabiana áherslu á að fólk með þroskahömlun fái tækifæri til að tala sínu máli sjálft og að á það sé hlustað. Þá hefur hún sérstakan áhuga á málefnum sem tengjast menntun, þátttöku og inngildingu fatlaðs fólks í samfélagið.
Við erum afskaplega ánægð með að hafa fengið Fabiönu til liðs við okkur og bjóðum hana hjartanlega velkomna.