Ívar Friðþjófsson er nýr starfsnemi hjá Þroskahjálp
Okkur hjá Þroskahjálp er sönn ánægja að kynna nýja starfsnemann okkar, Ívar Friðþjófsson.
Við erum virkilega heppin að fá Ívar til starfa og hlökkum til að vinna með Ívari að fjölbreyttum verkefnum.
Ívar Friðþjófsson
Hvað ertu gamall?
24 ára.
Í hvaða námi ertu?
Ég er í diplómanámi á menntavísindasviði í Háskóla Íslands, á fyrsta ári.
Hvernig er að vera í diplómanáminu?
Þegar ég útskrifaðist úr FB langaði mig að læra meira og ákvað að sækja um í diplómanámið, læra eitthvað nýtt og skoða hvaða möguleikar bjóðast þegar því lýkur.
Ég legg áherslu á mannréttindi í náminu, enda finnst mér mikilvægt að huga að því hvernig er hægt að gera samfélagið betra fyrir öll. Námið er mjög opið og skemmtilegt og við nemendurnir fáum að hafa heilmikið um það að segja hvernig við vinnum verkefnin okkar, sem mér finnst kostur.
Hvers vegna ákvaðst þú að koma í starfsnám hjá Þroskahjálp?
Mig langaði að kynna mér hvað réttindasamtök eins og Þroskahjálp standa fyrir og fá tækifæri til að starfa við að efla og vernda mannréttindi fatlaðs fólks.
Ég þarf að læra hvernig svona vinna fer fram og svo finnst mér mikilvægt að heyra hvað öðrum finnst um hverju þarf að breyta til að gera samfélagið betra fyrir öll. Mig langar að hjálpa einstaklingum til að finna það sem þau leita að til að verða sterkari og njóta fleiri tækifæra. Að þekkja réttindi sín gefur styrk í sálina og hjálpar fólki að sigrast á áskorunum og efasemdum um sína eigin getu.
Hvað finnst þér mikilvægast í réttindabaráttu fatlaðs fólk?
Að talað sé við fólk en ekki um það.
Það er líka mikilvægt að tala um fatlað fólk af sömu virðingu og allt annað fólk.
Öll höfum við ýmislegt fram að færa og getum lært hvert af öðru og þess vegna er mikilvægt að fatlað fólk sé sýnilegt í samfélaginu og fái tækifæri til tala um sín eigin mál sjálft.
Svo finnst mér líka mikilvægt að fólk átti sig á því að þau sem eru með ósýnilega fötlun, eins og ég, eiga sama rétt á stuðningi og þau sem eru með sýnilega fötlun. Við eigum öll að hafa jafnan kost á aðstoð til að geta verið virkir þátttakendur í lífinu og sagt skoðanir okkar.
Hvað langar þig að gera í framtíðinni?
Ég er ekki alveg viss. Ein af ástæðum þess að ég fór í diplómanámið var að mig langaði að kanna ýmsa möguleika og skoða hvað vekur áhuga minn. Mig langar að vinna við eitthvað sem skiptir máli og hafa fjölbreytt tækifæri þegar náminu lýkur. Ég þarf til dæmis stuðning og fylgd í daglegu lífi, en ég get samt gert ýmislegt og hef reynslu og hugmyndir sem eru dýrmætar.
Takk fyrir spjallið Ívar. Við hlökkum til samstarfsins.