Kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðum konum og skyldur stjórnvalda til að veita þeim vernd og tryggja fullnægjandi eftirlit í því skyni

Undanfarna daga hefur í fjölmiðlum verið fjallað um kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðum konum, hvaða skyldur hvíla á stjórnvöldum til að vernda þær gegn slíku ofbeldi og hvaða eftirliti stjórnvöldum ber að halda uppi í því skyni. Þetta er afar mikilvæg og mjög tímabær umfjöllun og umræða og þó að tilefni þess að hún er nú svo mikil í fjölmiðlum og samfélaginu öllu nú séu mál sem hljóta að vekja mikinn óhug er það von Landssamtakanna Þroskahjálpar að stjórnvöld bregðist nú tafarlaust við og geri það sem gera þarf til að tryggja fötluðum konum nægilega vernd gegn ofbeldi með lögum, í stjórnsýsluframkvæmd og réttarkerfinu öllu.

Kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðum konum og skyldur stjórnvalda til að veita þeim vernd og tryggja fullnægjandi eftirlit í því skyni.

 Undanfarna daga hefur í fjölmiðlum verið fjallað um kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðum konum, hvaða skyldur hvíla á stjórnvöldum til að vernda þær gegn slíku ofbeldi og hvaða eftirliti stjórnvöldum ber að halda uppi í því skyni.

Þetta er afar mikilvæg og mjög tímabær umfjöllun og umræða og þó að tilefni þess að hún er nú svo mikil í  fjölmiðlum og samfélaginu öllu nú séu mál sem hljóta að vekja mikinn óhug er það von Landssamtakanna Þroskahjálpar að stjórnvöld bregðist nú tafarlaust við og geri það sem gera þarf til að tryggja fötluðum konum nægilega vernd gegn ofbeldi með lögum, í stjórnsýsluframkvæmd og réttarkerfinu öllu.

Það er þó mikið umhugsunarefni hvernig á því stendur að til að vekja umræðu um þessi mikilvægu mannréttindamál og fá fram viðbrögð stjórnvalda skuli konur sem sætt hafa alvarlegu kynferðislegu ofbeldi þurf að segja frá þeirri sáru og ömurlegu reynslu sinni frammi fyrir alþjóð. Við stöndum öll í mikilli þakkarskuld við þessar hugrökku konur og hljótum að krefjast þess að stjórnvöld sýni þeim og öðru fötluðu fólki þá virðingu að grípa nú þegar til nauðsynlegra aðgerða til að verja fatlað fólk fyrir ofbeldi.

Þá vilja Landssamtökin Þroskahjálp af þessu tilefni vekja athygli á því að í 16. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega fjallað um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn en hafa ekki enn fullgilt hann en alls hafa meira en 150 ríki heims fullgilt samninginn.

Sérstök athygli er vakin á því að í 3. mgr. 16. gr. samningsins segir að stjórnvöld skuli tryggja virkt eftirlit með öllum úrræðum sem þjóna fötluðu fólki og í 5. mgr. 16. gr. eru sérstaklega áréttaðar skyldur stjórnvalda til tryggja skilvirka löggjöf og stefnu til að vernda fatlað fólk gegn ofbeldi og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.

16. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ber yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum og hljóðar greinin svo:

1. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsog menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, meðal annars með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.

2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, meðal annars með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun.

3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með öllum úrræðum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.

4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri aðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og aðlögun skal fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, mannlegri reisn og sjálfræði fólksins, þar sem tillit er tekið til sérþarfa þeirra miðað við kyn og aldur.

5. Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, þar með talið löggjöf og stefnu þar sem tilllit er tekið til sérstakra þarfa kvenna og barna til þess að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, sem beinast gegn fötluðu fólki, og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.