Á landsþingi samtakanna í október sl. var ályktað sérstaklega um nauðsyn þess að stjórnvöld hugi að því hvernig tryggja megi að fatlað fólk njóti verndar í réttarkerfinu, til jafns við aðra og grípi til nauðsynlegra aðgerða í því skyni. Frásagnir sem komið hafa í fjölmiðlum að undanförnu sýna mjög vel nauðsyn þessa.
Ályktun samþykkt á landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar 16.-17. október sl.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur lögreglu- og dómsmálayfirvöld til að setja skýrar verklagsreglur um hvernig bæta megi réttarvernd fatlaðs fólks í málum er varða ofbeldi, t.d. kynferðislega misnotkun. Sterkar vísbendingar eru um að fólk með þroskahömlun sem verður fyrir ofbeldi njóti ekki verndar réttarkerfisins með sama hætti og þeir sem ófatlaðir eru, þar sem ekki er tekið tillit til sérstakra aðstæðna þess. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega kveðið á um að stjórnvöldum beri að tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfi til jafns við aðra meðal annars með hagræðingu málsmeðferðar.
Um ályktunina og aðgang fatlaðs fólks að réttarkerfinu.
Margt í réttarkerfinu (lögreglurannsóknir, gæsluvarðhald, ákæruvald, dómstólar, fangelsi) er flókið. Það getur því verið erfitt fyrir alla að ná þar fram þeim lagalega rétti sem þeir eiga og einnig að verja sig fyrir órétti af hálfu annarra og jafnvel af hálfu réttarkerfisins sjálfs. Það er augljóslega sérstök hætta á því að þannig geti farið þegar fatlað fólk á í hlut og alveg sérstaklega þroskahamlað fólk eða fólk sem er með geðrænar raskanir af einhverju tagi.
Þess vegna er í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögð sérstök áhersla á að stjórnvöld skuli með lögum og í framkvæmd tryggja að réttarkerfið lagi sig að aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks þannig að tryggt verði að það njóti, til jafns við aðra, þeirra mikilvægu lagalegu réttinda sem það á að njóta í réttarkerfinu og í öllum samskiptum sínum við það.
Þessar skyldur stjórnvalda eru orðaðar svo í 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:
1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.
2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.
Á öðrum stað í samningnum segir:
Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.
Þetta þýðir að stjórnvöld eiga og mega taka sérstakt tillit til fatlaðs fólks og aðstæðna þess og þarfa í lögum og reglum varðandi réttarkerfið og í framkvæmd þess án þess að það teljist vera mismunun gagnvart öðru fólki.
Allt þetta á við hvort sem um er að ræða sakamál eða einkamál. Og þetta á við hvort sem um er að ræða fólk sem þarf á stuðningi og vernd réttarkerfisins að halda vegna þess að brotið hefur verið gegn því eða fólk sem er grunað um afbrot eða hefur verið dæmt til refsingar, s.s í fangelsi, vegna afbrots og þetta á lika við vitni í sakamálum og einkamálum.
Að undanförnu hafa komið upp mál sem sýna svo ekki verður um villst að íslenska réttarkerfið nær ekki að tryggja að fatlað fólks sem rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið gegn með alvarlegum hætti njóti þeirar stöðu og verndar sem það á rétt á að njóta til jafns við aðra.
Þá hafa einnig komið fram upplýsingar sem gefa ástæðu til að ætla að réttarkerfið taki ekki nægilegt tillit til stöðu og þarfa fólks sem er þroskahamlað og/eða glímir við geðrænar raskanir og er grunað um afbrot og er því rannsakað af háflu lögreglu og jafnvel sett í gæsluvarðhald.
Einnig liggja fyrir upplýsingar frá fangelsisyfirvöldum sem sýna svart á hvítu að einstaklingar sem eru þroskahamlaðir og/eða með geðrænar raskanir af einhverju tagi og hafa verið dæmdiir til fangelsisrefsingar fá allt of lítinn sérfræðistuðning í fangelsum og að í réttarkerfinu skortir mjög viðeigandi úrræði fyrir þá.
Landssamtökin Þroskahjálp telja afar brýnt að íslensk stjórnvöld láti án tafar fara fram greiningu á íslenska réttarkerfinu og grípi til viðeigandi og fullnægjandi aðgerða til að tryggja að réttarkerfið taki á öllum stigum nauðsynlegt tillit til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks.
Þetta mál snýst að augljóslega um ábyrgð, mannúð og virðingu en einnig og ekki síður um lagalegar skyldur stjórnvalda og mannréttindi sem þau hafa skuldbundið sig til að virða og eru sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.