Yfirlýsing vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs:

Þroskahjálp lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu fatlaðs fólks í þeim átökum sem nú geysa fyrir botni Miðjarðarhafs.

Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um áhrif átakanna á fatlað fólk, en reynslan úr fyrri átökum sýnir að fatlað fólk og fjölskyldur þess er í gríðarlegri hættu á alvarlegum heilsfuarslegum afleiðingum og jafnframt líklegri en aðrir til að glata lífinu.

Aðstæður nú eru sérlega hættulegar fötluðu fólki vegna árása á íbúðabyggðir og svæði sem stofna óbreyttum borgurum í hættu, óeðlilega stutts rýmingartíma þar sem möguleikar til að leita öryggis eru mjög takmarkaðir og aðgengi að þeim gríðarlega erfitt vegna linnulausra árása.

Þá gerir skortur á lífsnauðsynlegum björgum, s.s. rafmagni, eldsneyti, vatni og lyfjum aðstæður fatlaðs fólks enn erfiðari. Sprengjuárásir á sjúkrahús og heilbrigðsstarfsfólk eru mögulega stríðsglæpir sem koma harðast niður á veiku og fötluðu fólk og verður að linna tafarlaust.

 

Við skorum á íslensk stjórnvöld að krefjast þess á alþjóðavettvangi að opnað verði fyrir óhefta mannúðaraðstoð sem tekur fullt mið af þörfum og aðstæðum fatlaðs fólks til jafns við aðra íbúa á Gaza og að allir gíslar og einstaklingar sem handteknir hafa verið af geðþótta verði tafarlaus sleppt, sér í lagi fötluðu fólki.