Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál
1.mars 2023
Landssamtökin Þroskashjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi grænbókina.
Ekki verður séð að i grænbókinni sé fjallað um skyldur sveitarfélaga til að sjá fötluðu fólki fyrir húsnæði eins og kveðið er á um í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Í 9. gr. laganna sem hefur yfirskriftina Búseta segir:
Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.
Og í bráðabirgðaákvæði II i lögunum segir:
Fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skulu bjóðast aðrir búsetukostir samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim í samræmi við 9. gr.
Þrátt fyrir þessa skýru lagaskyldu stjórnvalda til að á fötluðu fólki fyrir húsnæði vantar mög mikið upp á að ríki og sveitarfélög hafi uppfyllt þær skyldur sínar og margt fatlað fólk hefur verið mjög lengi á biðlistum eftir að fá að njóta þessa lögbundna réttar síns.
Á bls. 34 – 35 í grænbókinni segir:
Almenna íbúðakerfið hefur það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því auka aðgengi að öruggu og viðeigandi húsnæði til leigu og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.
Óhjákvæmilegt er að árétta og ítreka að afar erfitt er og jafnvel ógert, eins og staðan á húsnæðis- og byggingarmarkaði er nú, að upfylla þetta mikilvæga markmið hvað var fatlað fólk, sem margt þarf að láta grunnörorkubætur duga fyrir allri framfærslu sinni en þær bætur eru mjög lágar og mun lægri en lágmarkslaun. Hár húsnæðiskostnaður kemur því sérstaklega illa við þennan fátækasta hóp samfélagsins.
Á bls. 40 í grænbókinni er fjallað um helstu tillögur OECD á sviði mannvirkjalaga og byggingareglugerðar. Vegna þess sem segir þar í 3. lið leggja samtökin mikla áherslu á að algjörlega óásættanlegt er að slegið verði að gæðakröfum þegar um húsnæði fyrir fatlað fólk er að ræða og þá eru aðgengiskröfur mjög oft grundvallaðar á mannréttindum, sem eru m.a. áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem langflest ríki í heiminum og þar með talið Ísland hafa skuldbundið sig til að virða og framfylgja.
Í þessu samhengi vilja samtökin einnig benda á að grænbókinni er lítið eða ekki fjallað um algilda hönnun og hvetja þau innviðaráðuneytið til að taka það til skoðunar
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, Verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.