Þroskahjálp hefur sent eftirfarandi fyrirspurn á mennta– og barnamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna yfirstandandi kennaraverkfalls:
Takmarkanir á skólahaldi í nokkrum leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum landsins tóku gildi þann 29. október sl. Samþykkt hafa verið verkföll í fjórum skólum til viðbótar sem hefjast í nóvember.
Þetta kemur að sjálfsögðu illa við flest börn og ungmenni og aðstandendur þeirra en hefur þó sýnu meiri og alvarlegri áhrif á fötluð börn og ungmenni sem fá nauðsynlegan stuðning og þjálfun í skólaumhverfinu. Ljóst er að rof á þeirri lögbundnu þjónustu sem fötluð börn njóta í skólanum getur haft verulega neikvæð áhrif á líðan og þroska þeirra.
Af því tilefni óska Landssamtökin Þroskahjálp eftir upplýsingum um hvernig lögbundin og nauðsynleg þjónusta er tryggð við nemendur sem njóta stuðnings á grundvelli fötlunar í þeim skólum sem boðað hafa til verkfalls.
Einnig óska samtökin eftir upplýsingum um hvernig staðið var að samráði við aðstandendur og fjölskyldur fatlaðra barna í þeim skólum sem taka þátt í verkfallsaðgerðum, til að tryggja hagsmuni barnanna sem best og koma í veg fyrir að rof verði á nauðsynlegum stuðningi og þjónustu meðan á verkfallsaðgerðum stendur.