Sérfræðihópur Inclusion Nordic sem kom saman í Helsinki Finnlandi. Á myndinni má m.a. sjá Hauk Guðmundsson, formann Átaks.
Í lok apríl fór fram samráðsfundurinn Inclusion Nordic, en það er samráðsvettvangur samtaka á norðurlöndunum sem gæta réttinda og hagsmuna fólks með þroskahamlanir og skyldar fatlanir. Fundurinn fór fram í Finnlandi og voru þar mættir fulltrúar frá Íslandi, Noregi, Danmörku, Færeyjum, Svíþjóð og Álandi.
Frá Íslandi mætti Anna Margrét frá Þroskahjálp ásamt Hauki og Branddísi frá Átaki – félagi fólks með þroskahömlun.
Á fundinum var rætt um þær áskoranir sem standa frammi fyrir fötluðu fólki á norðurlöndunum ásamt því að öll lönd deildu þeim árangri sem hefur náðst í baráttunni.
„Það er auðvitað sárt að fatlað fólk mæti svipuðum hindrunum og fordómum og við sjáum hér heima á Íslandi á hinum norðurlöndunum, en líka innblásandi að heyra af þeim árangri sem norræn systursamtök okkar hafa náð og af öllu því baráttufólki sem er að finna á norðulöndum sem gefast ekki upp í að berjast fyrir jafnrétti“ sagði Anna Margrét um fundinn.
Fundinn sátu bæði starfsfólk réttindasamtaka og sérfræðingahópur sem samanstendur af fólki með þroskahömlun sem er í forsvari fyrir sín samtök.
Sérfræðihópurinn ræddi sérstaklega um leiðir til að efla samstarf sín á milli og hvernig fólk með þroskahömlun getur látið rödd sína heyrast í réttindabaráttu.
Atvinnuþátttaka fólks með þroskahömlun á norðurlöndum
Farið var yfir mörg mikilvæg réttindamál, en það málefni sem helst var tekið fyrir var aukin atvinnutækifæri fyrir fólk með þroskahömlun. Á öllum norðurlöndunum eru atvinnutækifæri fólks með þroskahömlun af skornum skammti, þá sérstaklega þegar kemur að því að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt.
Fulltrúar frá Finnlandi deildu þeirri vinnu sem þau hafa verið í til að auka tækifæri þessa hóps á vinnumarkaði og skipulögðu meðal annars heimsókn í miðstöð sem sér um vinnuþjálfun fyrir fólk með þroskahömlun. Í vinnuþjálfun fá einstaklingar tækifæri til að læra og tileinka sér hæfni til að nýta síðar í launuðum störfum á almennum vinnumarkaði. Í miðstöðinni er hægt læra öðlast fjölbreytta reynslu, til dæmis af eldhússtörfum og eldamennsku, hannyrðum, listum og fleira. Þar fær fólk einnig aðgang að starfsþjálfara sem aðstoðar þau svo við að finna starf að þjálfun lokinni og starfsþjálfarinn er svo til stuðnings á vinnustaðnum.
Allir þátttakendur Inclusion Nordic voru sammála því að mikilvægt væri að fólk fengi greitt fyrir sína vinnu, rétt eins og aðrir. Fatlað fólk er auðlind á vinnumarkaði og mikilvægt er að meta framlag þeirra. Rætt var um mikilvægi þess að fræða vinnustaði um hvernig þau geti haft vinnuumhverfi sitt þannig að það henti fjölbreyttari hópum fólks.
Hópurinn mun áfram deila áskorunum og sigrum sem snúa að þessu málefni og voru öll sammála um að þrýsta í sameiningu á aukna möguleika fatlaðs fólks á vinnumarkaði, samhliða því að þrýsta á stjórnvöld allra norðurlanda að tryggja fötluðu fólki, sem ekki hefur tækifæri til að fá launaða vinnu, mannsæmandi framfærslu.