Þroskahjálp mótmælir harðlega illri meðferð íslenskra stjórnvalda á Yazan Tamimi!
Að nema fatlaðan, verkjaðan og langveikan dreng af sjúkrastofnun í skjóli nætur til að flytja hann ásamt fjölskyldu sinni af landi brott er augljóst brot á Barnasáttmálanum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Öll meðferð þessa máls er sérlega ómannúðleg og grimmileg.
Fyrir tveimur árum átti Þroskahjálp í löngu og víðtæku samráði við stjórnvöld og útlendingayfirvöld vegna illrar meðferðar á Hussein Hussein við sambærilegar aðstæður, en Hussein er fatlaður og langveikur maður sem sótt hafði um vernd á Íslandi. Hussein Hussein er ekki hér á landi lengur en var látinn ganga í gegnum sömu vanvirðandi meðferð og fara á mis við þau réttindi sem honum eiga að vera tryggð.
Og nú endurtekur sagan sig. Í ljósi þessa krefst Þroskahjálp svara frá stjórnvöldum um hvernig þau gátu látið þetta óhæfuverk fram ganga - og hvers vegna ekki var óskað eftir umræðu um mál Yazans í ríkisstjórn fyrr en á ögurstundu, þó tilmæli um brottvísun hafi legið fyrir um margra mánaða skeið.
Uppfært 17. september kl. 15.54
Þroskahjálp tekur heilshugar undir þau sjónarmið sem koma fram í orðum félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar.
- Það voru ekki eðlileg vinnubrögð að sækja Yazan inn á sjúkrastofnun til að flytja af landi brott.
- Að sjálfsögðu á úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Hussein Hussein að kalla á vandaðri vinnubrögð.
- Og síðast en alls ekki síst að það sé varhugavert að fara í aðra umferð á brottvísun svo stuttu eftir að drengurinn og foreldrar hans voru látin þola þá vanvirðandi meðferð sem fjölskyldan mátti sæta í gærkvöldi.
Þroskahjálp krefst þess að í framhaldi málsins verði hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi og mannréttindi sem grundvallast meðal annars á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmálanum að fullu virt.
Yazan á heima hér!