Umsögn Einhverfusamtakanna og Landssamtaka Þroskahjálpar um drög að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi fyrir árin 2025 – 2030.

Umsögn Einhverfusamtakanna og Landssamtaka Þroskahjálpar um drög að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi fyrir árin 2025 – 2030.

 

4. mars 2025

 

Einhverfusamtökin og Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi  á framfæri um drög að aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi fyrir árin 2025-2030.

Aðgengi að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun, einhverft fólk og fólk með fjölþættan vanda hefur ekki verið í boði, nema fyrir alvarlegustu tilfellin.  Það er óboðlegt með öllu og má að óbreyttu gera ráð fyrir því að vandamálin í geðheilbrigðismálum þessa hóps verði meiri og flóknari á komandi árum, sem mun, auk þess að skerða lífsgæði og tækifæri margra mjög mikið, leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkið.

Mikilvægt er að taka  sérstakt tillit til einhverfs fólks og að sá hópur verði skilgreindur sem sérstakur áhættuhópur í aðgerðaráætluninni um að fækka sjálfsvígum á Íslandi en rannsóknir sýna að einhverft fólk séu margfalt líklegri til að falla fyrir eigin hendi.

Í skýrslu Stjórnarráðs Íslands frá nóvember 2024 sem nefnist “Hvert á ég að leita?” Geðheilbrigðisþjónusta fyrir einhverfa 18 ára og eldri – niðurstaða ferlagreiningar. 

Í kafla 3.1 segir m.a.: “Beiðnum þeirra, sem greindir eru með einhverfu, um geðheilbrigðisþjónustu er vísað frá á mörgum stöðum um landið og búa þau því við ójöfnuð þegar kemur að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Ýmsar ástæður eru gefnar fyrir frávísun frá geðheilbrigðisþjónustu, t.d. að einhverfa sé fötlunargreining og því beri að þjónusta einhverfa einstaklinga annars staðar en í geðheilbrigðisþjónustu […] Í skýrslunni segir einnig að þekkt sé að einhverfir séu níu sinnum líklegri til að deyja af völdum sjálfsvíga en aðrir

 

Áhrif félagslegrar einangrunar, skorts á viðeigandi stuðningi og erfiðleikar við að nálgast geðheilbrigðisþjónustu auka líkur á alvarlegum afleiðingum fyrir einhverfa einstaklinga.

Í rannsókn frá Karolinska Institutet, kemur fram að einhverfir séu allt að sjöfalt líklegri til að falla fyrir eigin hendi, glíma við sjálfsvígshugsanir eða að gera tilraun til sjálfsvígs. Þunglyndi, kvíði og álagsþættir sem tengjast vanþekkingu á einhverfu innan heilbrigðiskerfisins eru stórir áhættuþættir.

 

Fyrirliggjandi aðgerðaáætlun tekur ekki sérstakt tillit til einhverfs fólks, sem er einn stærsti áhættuhópurinn. Skoða þarf sérstaklega hvernig á að mæta:  

  1. Skorti á sérhæfðri geðheilbrigðisþjónusta fyrir einhverfa. Sérsniðin úrræði verða að vera í boði, og starfsfólk verður að fá fræðslu um hvernig best sé að mæta þörfum einhverfs fólks.
  2. Markvissar og fyrirbyggjandi aðgerðir. Snemmtækur stuðningur er lykilatriði, sérstaklega fyrir þá sem upplifa félagslega einangrun. Það þarf að tryggja einhverfum greiðan aðgang að ráðgjöf og stuðningi áður en vandamál verða óviðráðanleg.
  3. Tryggja þarf kerfisbundna fræðslu um einhverfu og geðheilbrigði. Heilbrigðisstarfsfólk og aðrir sem vinna með einhverfum verða að fá fræðslu um einhverfu og geðheilbrigði. 
  4. Bæta þarf aðgengi að ráðgjöf og stuðningi. Eins og kemur fram í skýrslu Stjórnarráðsins,  sem fjallað er um hér að ofan, á einhverft fólk erfitt með að nálgast hefðbundin úrræði vegna sinna þarfa. Þjónusta verður einnig að vera einstaklingsmiðuð og aðgengileg.
  5. Það verður að tryggja betri samvinnu á milli geðheilbrigðiskerfisins, félagsþjónustu og annarra stuðningskerfa. Of margir einhverfir falla á milli kerfa og fá ekki nauðsynlega aðstoð.

 

Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs við heilbrigsráðuneytið varðandi það mál sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

 

Stefanía Hulda Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má málið sem umsögnin á við hér