Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára (hvítbók um húsnæðismál)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára (hvítbók um húsnæðismál)

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í 9. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, segir:

Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Um húsnæði fyrir fatlað fólk gilda ákvæði skipulags- og byggingarlaga, lög um húsnæðismál og lög um almennar íbúðir, eftir því sem við á.

Fatlað fólk á rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt er að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.

Og í ákvæði I til bráðabirgða í lögunum segir:

Fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skulu bjóðast aðrir búsetukostir samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim í samræmi við 9. gr.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks[1] árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nú í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ...
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Í 19. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginusegir:

    Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja: 
         a)          að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi ...

Þrátt fyrir að þessi skýra lagaskylda til að sjá fötluðu fólki fyrir húsnæði hafi hvílt á ríki og  sveitarfélögum í mörg ár og þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og aþr með skuldbundið sig til að framfylgja  ákvæðum, þ.m.t. framgreindum ákvæðum 19. gr. samningsins, er framkvæmd ríks og sveitarfélaga á þessu sviði algjölega óforsvaranleg.

Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, sem skilað var til félags- og vinnumarkaðsráðherra vorið 2022, kemur fram að 323 fatlaðir einstaklingar hafi þá verið á biðlista eftir húsnæði og 163 hafi búið í herberjasambýlum og að samkvæmt því þurfi að byggja allt að 486 íbúðir til að eyða biðlistum og leggja niður herbergjasambýli. Því miður er ekkert tilefni til að ætla að þetta ólíðandi ástand hafi batnað verulega og raunar er tilefni til að ætla að það hafi versnað.

Margt fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir hefur beðið eftir íbúð, sem það á lagalegan rétt á, mjög lengi. Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða yfir áratug og jafnvel lengur eftir að eignast eigið heimili. Með þessari óforsvaranlegu og ólöglegu framkvæmd er vegið mjög alvarlega að margvíslegum mikilvægum mannréttindum, s.s. réttinum til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, og réttinum til að eiga einkalíf og fjölskyldulíf.

Þetta er ólíðandi ástand sem ábyrg stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algjöran forgang að bæta úr.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja Landssamtökin Þroskahjálp nauðsynlegt að í stefnumótun þeirri, sem hér er til umsagnar, verði mun skýrar fjallað um hvað stjórnvöld ætli að gera til að standa við lagalegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar á þessu sviði gagnvart fötluðu ffólki.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við innviðaráðuneytið við það verkefni og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samningsins

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér