Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun í krabbameinsmálum 2025-2029

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun í krabbameinsmálum 2025-2029.

 

                                                                                         12. nóvember 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.


Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Unnið að því að  samningurinn verði lögfestur og nú er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

 

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar, m.a. í 25 gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Heilbrigði. Þar segir:

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu...

 

Samtökin lýsa stuðningi við tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun í krabbameinsmálum 2025-2029 en vilja sérstaklega benda á mikilvægi þess að auka þarf aðgengi fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir að krabbabeinsskimunum með viðeigandi aðlögun, forvörnum og fræðslu því margir  treysta sér ekki í krabbabeinsskimanir eða fá ekki ekki nægar eða viðeigandi upplýsingar um hvernig þær fara fram.

Rannsóknir erlendis sýna að fatlað fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir nýti sér síður krabbameinsskimanir en aðrir hópar fólks, sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu hópsins.

 

Virðingarfyllst

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.