Landssamtökin Þroskahjálp og Geðhjálp sendu meðfylgjandi bréf til stjórnvalda um að tryggja að fólk með þroskahömlun og geðrænar raskanir njóti réttinda og verndar í réttarkerfinu til jafns við aðra og í samræmi við mannréttindaskuldbindingar.
Reykjavík,
4. nóvember 2015.
Ríkisstjórn Íslands
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra
Stjórnaráði Íslands v/ Lækjargötu
101 Reykjavík
Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp skora á stjórnvöld að virða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og aðra mannréttindasáttmála í meðferð brotamála og málaferlum á hendur fatlaðs fólks á Íslandi. Að því er fram hefur komið í fjölmiðlum hefur verið brotið gegn samningi Sameinuðu þjóðanna með fleiri en einum hætti í tilviki geðsjúks fanga með þroskaskerðingu á Litla Hrauni á allra síðustu vikum.
Samtökin vilja að eftirfarandi sé tryggt:
- Að byrjað sé á því að afla ítarlegra gagna um fötlun viðkomandi til að hægt sé að taka mið af henni við málsmeðferðina, sbr. 1. mgr., 13. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Að kallaður sé til sérfræðingur til að meta fötlun viðkomandi án tafar þegar til stendur að svipta fatlaðan einstakling frelsinu. Þegar erlendur ríkisborgari og/eða heyrnaskertur einstaklingur eiga í hlut sé kallaður til sérhæfður túlkur til að tryggja að viðkomandi geti tjáð sig eðlilega. Tryggt sé að öllum föngum séu miðlaðar upplýsingum um réttindi sín og reglur í fangavistinni.
- Að komið sé á fót viðeigandi úrræði fyrir sakhæft fatlað fólk á rannsóknar- og refsistigi, sbr. 4. mgr., 16. greinar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.
- Að tryggð sé lögbundin geðheilbrigðisþjónusta til handa föngum, sbr. ítrekaðar ábendingar Geðhjálpar, Umboðsmanns Alþingis og Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
- Að tafarlaust séu gerðar einstaklingsbundnar meðferðar- og vistunaráætlanir fyrir fanga, sbr. 17. gr. laga um fullnustu refsinga og reglugerð sem sett hefur verið á grundvelli laganna. Forgangsraðað verði í þágu fatlaðra og/eða sjúkra fanga.
- Að stuðlað sé að því að fangar með alvarlega fötlun og/eða sjúkdóma eins og alvarlega geðsjúkdóma fái að afplána hluta eða allan dóm sinn á heilbrigðisstofnun, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um fullnustu refsingar.
- Að tryggt sé að tíu mánaða gamalt loforð stjórnvalda um að koma á fót sérhæfðu úrræði fyrir alvarlega geðsjúka á höfuðborgarsvæðinu verði efnt hið fyrsta. Enn liggur ekki fyrir hvort eða hvar slíkt úrræði verður reist eða rekið.
- Að stuðlað sé að því að veita lögreglumönnum og starfsfólki fangelsa viðeigandi fræðslu á sviði réttarvörslu hvað varðar málsmeðferð fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með því verði m.a. tryggt að ætíð verði kallaður til réttindagæslumaður fatlaðs fólks þegar til stendur að fangelsa fatlaðan einstakling.
Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp skora á stjórnvöld að bæta úr ofangreindu hið fyrsta enda hlýtur frelsissvipting einstaklinga af hálfu stjórnvalda að fela í sér aukna ábyrgð stjórnvalda á því að tryggja þeim lögbundna þjónustu þar eð þeir geta ekki vegna frelsisviptingar sjálfir nálgast hana.
Virðingarfyllst fyrir hönd Landssamtakanna Geðhjálpar og Þroskahjálpar,
Hrannar Jónsson og Bryndís Snæbjörnsdóttir.