Umsögn landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.
Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim á öllum sviðum sem samningurinn nær til. Í samningnum er m.a. kveðið á um skyldur ríkja til að vernda fatlað fólk fyrir afleiðingum stríðsátaka og náttúruhamfara og til að veita fötluðum börn sérstaka vernd og stuðning.
Landsþingi Landssamtakanna þroskahjálpar hefur ályktað um skyldur íslenskra stjórnvalda m.t.t. fatlaðs fólks sem leitar hælis hér á landi:
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum til að taka tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks. Þá hvetur landsþingið stjórnvöld til að beita sér fyrir því í alþjóðlegu samstarfi varðandi vanda flóttafólks að sérstaklega verði hugað að þeirri miklu þörf fyrir vernd og stuðning sem fatlað fólk á stríðshrjáðum svæðum hefur.
Með vísan til framangreinds hvetja Landssamtökin Þroskahjálp dómsmálaráðuneytið til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum ríkja til að taka sérstakt tillit til þarfa fatlaðs fólks og alveg sérstaklega fatlaðra barna fyrir stuðning og vernd við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks hér á landi og við meðferð mála og ákvarðanir í þeim. Óþarft er að taka fram að fötluð börn njóta einnig sérstakrar verndar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem íslenska ríkið hefur fullgilt og auk þess tekið í lög.
Landssamtökin Þroskahjálp leggja því mjög eindregið til að í 32. gr. a í reglugerðardrögum þeim sem hér eru til umsagnar verði tekin ákvæði sem tryggi það með skýrum og afdráttarlausum hætti. Það má gera með því að bæta inn í neðangreind ákvæði í drögunum því sem feitletrað er hér að neðan:
ef umsækjandi eða barn sem hann hefur forræði yfir mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri aðstoð vegna fötlunar eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi eða barn sem hann hefur forræði yfir getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki,
ef umsækjandi eða barn sem hann hefur forræði yfir glímir við fötlun eða mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Meðferð telst ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en viðkomandi muni ekki standa hún til boða, eða ef umsækjanda, vegna þungunar, stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki.