From: Árni Múli Jónasson
Sent: 2. júní 2016 11:35
To: 'sii@althingi.is' <sii@althingi.is>; 'elsalara@althingi.is' <elsalara@althingi.is>; 'asmundurf@althingi.is' <asmundurf@althingi.is>; 'olinath@althingi.is' <olinath@althingi.is>; 'Páll Valur Björnsson' <pallvalur@althingi.is>; 'siljadogg@althingi.is' <siljadogg@althingi.is>; 'sjs@althingi.is' <sjs@althingi.is>; 'ragnheidurr@althingi.is' <ragnheidurr@althingi.is>; 'ubk@althingi.is' <ubk@althingi.is>; 'helgihrafn@althingi.is' <helgihrafn@althingi.is>; 'postur@vel.is' <postur@vel.is>; 'inga.hrefna@vel.is' <inga.hrefna@vel.is>
Cc: 'Gunnlaugur Helgason' <gunnlaugurh@althingi.is>; Bryndís Snæbjörnsdóttir <bryndis@throskahjalp.is>
Subject: Varðar stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.
Til þingmanna í velferðarnefnd og heilbrigðisráðherra.
Landssamtökin Þroskahjálp (LÞ) fagna því að Alþingi skuli hafa samþykkt þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheibrigðismálum. Það er mikilvægt að hafa slíkan grunn og leiðarvísi fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld til að vinna á og taka mið af þó að árangurinn ráðist að sjálfsögðu alfarið af því hversu vel þau standa sig í að framkvæma stefnuna og áætlunina þannig að lífsgæði og tækifæri fólks af holdi og blóði aukist og batni.
LÞ telja þó óhjákvæmilegt að koma eftirfarandi athugasemdum og ábendingum á framfæri við velferðarnefnd og heilbrigðisráðherra varðandi stefnuna og áætlunina.
Í umsögn sinni um þingsályktunartillögu um stefnuna og aðgerðaáætlunina lögðu LÞ mikla áherslu á að afar mikilvægt er að fötluðu fólki bjóðist viðeigandi heilbrigðisþjónusta sem taki mið af þörfum sem oft ráðast mikið af eðli fötlunar þeirra og margvíslegum hindrunum sem fatlað fólk þarf að takast á við, s.s. vegna þroskahömlunar og / eða einhverfu.
Í umsögn LÞ sagði m.a.:
Í stefnuna og aðgerðaáætlunina vantar algjörlega ákvæði er varða geðheilbrigðisþjónustu við fatlað fólk, annað en geðfatlað. Þetta er mjög mikill og alvarlegur annmarki á stefnunni og aðgerðaáætluninni sem nauðsynlegt er að bætt verði úr. Ljóst er og viðurkennt að fatlanir og skerðingar af ýmsu tagi krefjast þess að þeir einstaklingar sem í hlut eiga fái sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu sem er sniðin sérstaklega að þörfum þeirra og aðstæðum. Það á við fólk með ýmiss konar skerðingar og raskanir og m.a. fólk með þroskahamlanir og einhverfurófsraskanir. Þar er um að ræða hópa fatlaðs fólks sem hafa meiri og sértækari þarfir að þessu leyti en aðrir almennt hafa. Þetta er vel þekkt og viðurkennt og hefur geðsvið Landspítalans t.a.m. talið sig hafa sérstakar skyldur gagnvart þessum hópum. Geðheilbrigðisþjónusta sem þeim er nú veitt er hins vegar mjög takmörkuð og ríkir nokkur óvissa um framtíð hennar. Því er afar mikilvægt að í stefnunni og aðgerðaáætluninni verði mælt fyrir um hvernig stjórnvöld ætla að tryggja þessum hópum fullnægjandi og trausta geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar sem sniðin er að þörfum og aðstæðum þessara hópa.
Í umsögninni bentu samtökin einnig á skyldur stjórnvalda til að huga sérstaklega að og mæta þessum þörfum samkvæmt mannréttindasamningum, s.s. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur lagagildi á Íslandi og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en íslensk stjórnvöld undirrituðu þann samning árið 2007 og undirbúa nú að fullgilda hann með því að tryggja að lög, reglur, stefnumótun og stjórnsýsluframkvæmd uppfylli kröfur samningsins. Stefnumörkun og aðgerðaáætlun af því tagi sem hér er til umfjöllunar er augljóslega afar mikilvægur þáttur í því.
Umsögn LÞ um þingsályktunartillögu um stefnuna og aðgerðaáætlunina má nálgast á þessum link:
http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-486.pdf
Við undirrituð mættum einnig á fund velferðarnefndar þegar þingsályktunartillagan var þar til umfjöllunar og gerðum nefndinni grein fyrir því sem fram kemur í umsögn samtakanna og þeim áhersluatriðum sem þar er að finna og þeim þörfum og sjónarmiðum sem þau byggjast á.
Það voru því samtökunum mikil vonbrigði að í þingsályktun sem Alþingi samþykkti um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum skuli ekki vera fjallað sértstaklega um þarfir fatlaðs fólks fyrir geðheilbrigðisþjónustu sem tekur sérstakt og nægilegt tillit til fötlunar þess og hvernig hlutaðeigandi stjórnvöld hyggjast mæta þeim þörfum.
Að mati LÞ er ljóst að ef ekki er tryggt að fatlað fólk eigi kost á geðheilbrigðisþjónustu, sem tekur nægilegt tillit til fötlunar þess, sé um mismunun á gundvelli fötlunar að ræða hvað varðar afar mikilsverð réttindi sem viðurkennt er að teljast vera mannréttindi í skilningi laga og mannréttindasamninga, þ.e. réttinn til aðgangs að heilbrigðisþjónustu án mismununar.
Ekki þarf að fjölyrða um að mismunun af því tagi brýtur gegn jafnræðisreglu íslenskra laga og fjölþjóðlegra mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur undirgengsist sem og gegn markmiðum og meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin þroskahjálp á Alþingi, heilbrigðisráðherra og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld að gera það sem gera þarf til að tryggt verði að fatlað fólk fái notið viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu til jafns við aðra.
Virðingarfyllst,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.