Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum ýmissa laga um bann við mismunun (réttindi fatlaðs fólks). (Þingskjal 144 144. mál).
Landssamtökin Þroskahjálp þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að fá ofangreint lagafrumvarp sent til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.
Samtökin styðja heilshugar þær breytingar á lögum sem lagðar eru til i frumvarpinu og taka einnig mjög undir þau sjónarmið og rök sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu.
Mismunun fólks á grundvelli fötlunar þess er mjög mikil hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því. Samningur Sameinuðu (SÞ) þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lagður var fram til undirritunar og fullgildingar ríkja árið 2007 og sú staðreynd að þegar hafa flest ríki í heiminum fullgilt samninginn er skýr staðfesting þess að alþjóðasamfélagið hefur viðurkennt að fatlað fólk er beitt mikilli mismunun og órétti sem ríki verða að bregðast við með setningu laga og skilvirkri framkvæmd þeirra. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki tækifæri til eðlilegs lífs til jafns við aðra.
Íslenska ríkið undirritaði samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 en hefur nú níu árum síðar ekki enn þá fullgilt hann. Stjórnvöld hafa þó lýst því yfir margoft og mjög skýrt að samningurinn verði fullgiltur á næstunni og að verið sé að gera breytingar á íslenskum lögum, reglum og stjórnsýsluframkvæmd til að tryggja að kröfur sem samningurinn gerir séu og verði uppfylltar.
Þá er er í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, mælt fyrir um að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Verði það frumvarp sem hér er til umfjöllunar samþykkt og gert að lögum verður stigið stórt skref til að tryggja betur og skýrar lagalega vernd fatlaðs fólks fyrir mismunun á ýmsum sviðum sem reynslan sýnir að mikil þörf er á.
LÞ telja mikilvægt og eðlilegt, í ljósi, sögunnar, reynslunnar og stöðunnar, að fötlun verði sérstaklega tilgreind í þeim lagaákvæðum sem með frumvarpinu er lagt er til að verði breytt af sömu ástæðum og með sömu rökum og tiltekin atriði eru nú þegar tilgreind þar til að veita þeim sem þau eiga við skýra lagalega vernd gegn mismunun.
Þá vilja LÞ nota þetta tækifræri til að vekja athygli allsherjar- og menntamálanefndar á að nákvæmlega sömu rök og sjónamið og fram koma í greinargerð með frumvarpinu og rakin eru hér að framan eiga við um jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar og þörfina fyrir að fötlun verði sérstaklega tilgreind í henni.[1]
22. mars 2016.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri landssamtakanna Þroskahjálpar.
[1] Jafnræðisreglan er í 65. gr. stjórnarskrárinnar og hljóðar svo:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
lagafrumvarpið sem um ræðir má nálgast hér