Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna um tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna um tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. 575. mál.

 

Landssamtökin Þroskahjálp og Einhverfusamtökin skiluðu umsögn um drög að stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 þegar drögin voru kynnt í samráðsgátt.

Samtökin gerðu þar alvarlegar athugasemdir er varðar aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun, fólk á einhverfurófi og með  skyldar fatlanir. Samtökin fagna því að athugasemdir þeirra varðandi eftirfarandi atriði hafa verið teknar til greina í þeirri þingsályktunartillögu sem er nú til meðferðar á Alþingi og hér til umsagnar og munu fylgja því eftir að þeim verði framfylgt:

Samtökin fagna því að í c. lið 1. tl. er sérstaklega tekið fram að allir landsmenn hafi aðgang að hagnýtum, gangreyndum og auðskildum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu.

Samtökin fagna því að  2. tl. kemur fram að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.  Undir lið d. er tekið fram að þverfagleg teymisvinna einkenni vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja betra aðgengi, gæði, skilvirkni og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla án aðgreiningar.

Í greinagerð með þingsályktunartillögunni er sérstaklega tekið fram að lögð verði áhersla á að veita skulu þjónustu fyrir alla og ekki verði vísað til sérstakra hópa heldur öllum gert jafn hátt undir höfði og að tryggt verði að fólki verði ekki mismunað um aðgang að þjónustunni á grundvelli fötlunar.

Mikilvægt er að nefna sérstaklega að ef að þekking á fötlun er ekki til staðar þurfi þjónustuveitandi að hafa aðgang að ráðgjafarteymi sem geti komið inn í mál þegar þörf er á í stað þess að vísa fólki á sérúrræði vegna fötlunar þess.

Fögnum við því að í stefnunni sé lögð áhersla á að þétta netið svo það grípi alla þá sem þurfa á þjónustu að halda án nokkurrar aðgreiningar og að fagstéttir fái samræmda þjálfun og handleiðslu.

Landssamtökin Þroskahjálp og Einhverfusamtökin lýsa miklum vilja og áhuga á að eiga samstarf og samráð við hlutaðeigandi stjórnvöld til að tryggja að stefna í geðheilbrigðismálum taki nauðsynlegt tilliti til aðstæðna, þarfa og réttinda fólks með þroskahömlun, einhverfu og skyldar fatlanir.

Samtökin óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi þingsályktunartillöguna.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna

 

Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér: