Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Geðhjálpar um frumvarp til laga um sanngirnisbætur, 449. mál
29. nóvember 2023
Landssamtökin Þroskahjálp og Geðhjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja á þessu stigi koma eftirfarandi á framfæri varðandi það en áskilja sér rétt til að koma á framfæri frekari ábendingum, athugasemdum og tillögum síðar.
Samtökin leggja sérstaka áherslu á að frumvarpið verði vandlega rýnt m.t.t. þess að ef það verður samþykkt muni það að engu leyti leiða til að réttarstaða þeirra sem kunna að eiga rétt til bóta verði á nokkurn hátt síðri en hún er samkvæmt núgildandi lögum.
Þá leggja samtökin sérstaka áherslu á að frumvarpið verði vandlega rýnt m.t.t. þess að ef það verður samþykkt muni það að engan hátt leiða til að minni líkur verði á að kerfisbundin misnotkun og/eða ill meðferð á tilteknum hópum í fortíð, nútíð og/eða framtíð verði síður rannsökuð vandlega, eftir atvikum af sérstaklega skipuðum óháðum rannsóknarnefndum og ítarlegar og vandaðar skýrslur lagðar fram um hvað slíkar rannsóknir leiða í ljós. Slíkar rannsóknir og skýrslur eru forsenda þess að unnt sé að tryggja að aðilar, sem bera ábyrgð á misnotkun og/eða illri meðferð, þurfi að sæta einhverri ábyrgð vegna gerða sinna og/eða aðgerðaleysis og að hlutaðeigandi stjórnvöld og aðrir aðilar, sem ábyrgð kunna að bera að því leyti geti lært af órétti, sem viðgengist hefur og því sem aflaga hefur farið og síðast en ekki síst eru slíkar rannsóknir og skýrslur mjög mikilvægar til þess að þolendur illrar meðferðar og/eða misnotkunar fái opinbera viðurkenningu á að þau hafi verið órétti beitt. Þá eru slíkar rannsóknir mjög mikilvæg vegna þeirra fælni áhrifa sem þær hafa með því að veita þeim aðilum, sem gætu gerst brotlegir í nútíð og framtíð, aðhald og stuðlað þannig að því að síður verði brotið á fólki með þessum hætti.
Samtökin lýsa miklum efasemdum um að hámarksfjárhæðir bóta, sem tilgreindar eru í frumvarpinu, standist nauðsynlegar og eðlilegar jafnræðis-, sanngirni- og réttlætiskröfur og skora á allsherjar- og menntamálanefnd og Alþingi að fara vandlega yfir þær m.t.t. þess.
Í 2.gr. er fjallað um gildissvið en þar kemur m.a. þetta fram: „Sama gildir ef einstaklingar hafa áður fengið greiddar bætur á grundvelli heimilda í lögum nr. 47/2010, samkvæmt ákvörðun stjórnvalda eða dómi dómstóla.“ Þetta ákvæði er harðneskjulegt þar sem því miður er þannig farið að einstaklingar geta hafa verið vistaðir sem börn á nokkrum stofnunum/stöðum á vegum opinberra aðila en síðar á ævinni á öðrum stofnunum og verið beittir harðræði/ofbeldi á fleiri en einni stofnun/stöðum. Þetta ákvæði er til þess fallið að draga úr því nauðsynlega uppgjöri sem verður að fara fram vegna þeirrar framkomu sem sýnd var einstaklingum í umsjá opinberra aðila á Íslandi í gegnum tíðina.
Í framhaldinu er mikilvægt að íslenskt samfélag verði þannig að það verði ríkjandi hugsun að horfa á nútímann með augum framtíðarinnar í stað þess að gera bara upp fortíðina með augum nútímans. Til þess að það megi gerast þarf að velta öllum steinum fortíðarinnar við og gangast við því sem gert var á hluta fjölmargra einstaklinga. Jafnhliða innleiðum við þessa hugsun framtíðarinnar inn í allt starf þar sem fólk á öllum aldri er í umsjá opinberra aðila.
Samtökin leggja mikla áherslu á að lagafrumvarpið verði sérstaklega skoðað og vandlega rýnt í því skyni að tryggja að ákvæði þess taki fullt tillit til réttinda, aðstæðna fatlaðs fólks, þ.m.t. fólks með þroskahömlun og einhverfs fólks, sem og fólks með geðrænar áskoranir. Það er skýr og mjög mikilvæg skylda íslenska ríkisins að gæta þessa við setningu laga og reglna sem hafa augljóslega mikla þýðingu hvað varðar fólk sem tilheyrir þessum hópum.
Þessi skylda er m.a. sérstaklega áréttuð í 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi samninginn. Þá hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt og hafið sérstaka framkvæmd landsáætlunar um innleiðingu á samningnum.
Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa mjög mikla þýðingu í sambandi við það frumvarp sem hér er til umsagnar. Þar má nefna 5. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun (þar er m.a. skyldan til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi aðlögun sem er bráðnauðsynlegt í þessu samhengi), 12. gr. sem hefur yfirskriftina Jöfn viðurkenning fyrir lögum (þar ef m.a. skyldan til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning til að nýta löghæfi sitt, þ.e. rétthæfi og gerhæfi), 13. gr., sem hefur yfirskriftina Aðgangur að réttinum, 15. gr., sem hefur yfirskriftina Frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, 16. gr. sem hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum og 22. gr. sem hefur yfirskriftina Virðing fyrir einkalífi.Af þessum ákvæðum leiðir m.a. mjög skýr og rík skylda á stjórnvöldum til að veita fötluðu fólki og viðeigandi aðstoð til að gæta hagsmuna sinna og sækja rétt sinn og til að taka í því sambandi fullt tillit til fötlunar, aðstæðna og þarfa þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Í þessu sambandi leggja samtökin til að í frumvarpinu verði sérstaklega kveðið á um aðkomu réttindagæslu fyrir fatlað fólk að málum þegar það á við.
Þá vilja samtökin nota tækifærið til að minna Alþingi og hlutaðeigandi ráðuneyti á að 8. júní 2022 skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, sem falið var að undirbúa rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda, skýrslu sinni. Í skýrslunni kemur m.a. þetta fram:
- Nefndin leggur til að rannsóknin fari fram samkvæmt fyrirmælum laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Slíkt fyrirkomulag gefi rannsóknarnefnd sjálfstæði, styrkar rannsóknarheimildir og sé einnig í samræmi við þann vilja Alþingis að almenn lög gildi almennt um slíkar rannsóknir.
- Þá er lagt til að rannsóknartímabilið verði annars vegar frá 1970 - 2011 og hins vegar frá 2011 og til dagsins í dag.
- Nauðsynlegt er að fatlað fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda sé á meðal nefndarmanna.
- Lögð er þung áhersla á að gæta þess að fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda fái fullnægjandi aðstoð við að koma málum sínum á framfæri við nefndina og fylgja þeim eftir.
- Að rannsóknin byggi á jafnræði hvað varðar afmörkun og umfang rannsóknar.
- Að rannsóknin byggi á gagnsæi, bæði hvað varðar verklag og niðurstöður.
- Loks eru settar fram mögulegar rannsóknarspurningar sem leitað yrði svara við.
Velferðarnefnd þingsins fékk málið til meðferðar þegar skýrslunni hafði verið skilað og var ætlað að skila þingsályktunartillögu um framkvæmd rannsóknarinnar. Nú eru liðnir 18 mánuðir frá því skýrslunni var skilað og enn bólar ekki á þessari þingsályktun, þó að samtökin hafi ítrekað minnt forsætisráðuneytið og velferðarnefnd á málið. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu alvarlegu virðingar- og tillitsleysi þetta aðgerðarleysi stjórnvalda lýsir gagnvart því fatlaða fólki og fólki með geðrænan vanda sem í hlut á og aðstandendum þeirra.
Að lokum vilja samtökin sérstaklega árétta og ítreka mikilvægi þess að þau mörgu alvarlegu mál, sem upp hafa komið hér á landi um illa meðferð og/eða misnotkun berskjaldaðra hópa, þ.m.t. fatlaðs fólks og fólks með geðrænar áskoranir, verða að leiða til þess að stjórnvöld taki miklu alvarlegar en þau hafa gert skyldur sínar til að tryggja betur réttindi berskjaldaðra einstaklinga og hópa berskjaldaðs fólks og vernd þeirra fyrir mismunun, ofbeldi, illri meðferð og/eða misnotkun með því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og reglum, eftirliti og framkvæmd almennt og sérstaklega m.t.t. fólks með þroskahömlun og fólks með geðrænar áskoranir. Þá þarf að efna til vitundarvakningar um þessi mál í samfélaginu öllu og sérstaklega hjá þeim, sem ábyrgð bera á velferðar- og heilbrigðisþjónustu og réttarvörslu og þeim sem starfa í þeim kerfum.
Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það frumvarp sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi m.a. til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Samtökin óska eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og afstöðu til frumvarpsins.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir Sigríður Gísladóttir
formaður landssamtakanna Þroskahjálpar formaður landssamtakanna Geðhjálpar
Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.