Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á lögræðislögum

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á lögræðislögum (ýmsar breytingar)

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja það, sbr. 4. gr. samningsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi samninginn. Þá hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að gerð skuli landsáætlun um innleiðingu á samningnum.

Mörg ákvæði samningsins hafa mjög mikla þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umsagnar og umfjöllunar, s.s. ákvæði 5. gr. sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun, ákvæði 12. gr. sem hefur yfirskriftina Jöfn viðurkenning fyrir lögum, ákvæði 13. gr. sem hefur yfirskriftina Aðgangur að réttinum, ákvæði 14. gr. sem hefur yfirskriftina Frelsi og öryggi einstaklingsins, ákvæði 16. gr. sem hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum og ákvæði 17. gr. sem hefur yfirskriftina Verndun friðhelgi einstaklingsins.

Landssamtökin Þroskahjálp leggja afar mikla áherslu á að við þessa endurskoðun á lögræðislögum verði þess mjög vel gætt að lögin samræmist að fullu þeim réttindum fatlaðs fólks og skyldum stjórnvalda, sem kveðið er á um í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Í því sambandi er nauðsynlegt að byggt verði á almennum athugasemdum eftirlitsnefndar (e. General Comments) með samningnum. Nefndin hefur það mikilvæga hlutverk að gefa aðildarríkjum að samningnum leiðbeiningar varðandi túlkun og framkvæmd á einstökum greinum samningsins og skýra hvernig þau geta staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt þeim.

Í þessu samhengi benda samtökin sérstaklega á almennar athugasemdir nefndarinnar varðandi 12. gr. samningsins (Jöfn viðurkenning fyrir lögum) og 5. gr. hans (Jafnrétti og bann við mismunun).

Almennar athugasemdir nefndarinnar má nálgast á heimasíðu hennar:

https://www.ohchr.org/en/treaty-bodies/crpd/general-comments

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér