Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi: Almannatryggingar. Aldursviðbót, tenging við launavísitölu og söfnun upplýsinga í tölfræðilegum tilgangi
10. mars 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.
28. gr. samningsins hefur yfirskriftina Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd. Þar segir í 1. mgr.:
Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.
Aldursviðbót er m.a. ætlað að koma til móts við þann hóp fatlaðs fólks, sem hefur oft óverulegar lífeyris- og fjármagnstekjur. Þá er eignastaða þess hóps mjög oft mun lakari en þeirra sem verða fyrir skerðingu eða veikjast síðar á lífsleiðinni. Það á við hjá fólki sem svo háttar til um og hefur verið á örorkubótum og nær 67 ára aldri.
Tenging við launavísitölu er nauðsynleg til að koma í veg fyrir þá miklu kjaragliðnun, sem fatlað fólk hefur mátt þola á síðustu áratugum en markmið stjórnvalda hlýtur þó að vera að hækka lífeyri fatlaðs fólks verulega umfram hækkun samkvæmt launavísitölu til að leiðrétta það mikla óréttlæti, sem hefur viðgengist og leitt hefur til fátæktar og mjög alvarlegra skerðinga á tækifærum fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu.
Með vísan til þess sem að framan er rakið lýsa samtökin stuðningi við frumvarpsdrögin en áskilja sér rétt til að koma athugasemdum og ábendingum varðandi frumvapið á framfæri við ráðuneytið og/eða Alþingi á síðari stigum.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Nálgast má málið sem umsögnin á við hér