Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um vistun barna á vegum annarra en barnaverndarnefnda samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga (sumarbúðir o.fl.), nr. 366/2005.

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um vistun barna á vegum annarra en barnaverndarnefnda samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga (sumarbúðir o.fl.), nr. 366/2005.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.

Landssamtökin fagna því að mælt sé fyrir um að rekstaraðilum sé skylt að viðhafa virkt innra eftirlit með starfsemi sinni og tryggja að starfsemin uppfylli þau skilyrði sem sett eru og einnig að rekstaraðila sé jafnframt skylt að tilkynna alvarleg óvænt atvik þau skilyrði sem sett eru, sbr. 11. og 12. gr. laga um Gæða og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Í árslok 2021 kom út skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar á búsetuúrræðum og hvíldardvöl í Klettabæ. Minnt var á ábyrgð sveitarfélaga að gera einstaklingsbundna þjónustusamninga, að kröfulýsing eða ítarleg þjónustulýsing skuli fylgja þjónustusamningi sveitarfélaga við Klettabæ og lögbundna skyldu sveitarfélags varðandi innra eftirlit með framkvæmd þjónustu Klettabæjar á grundvelli þjónustusamnings. Þá kom einnig í ljós að eftirlit og samstarf við vistun barns var meiri ef vistun var gerð á grundvelli barnaverndarlega en laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi  stuðningsþarfir.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir áhyggjum af þessum niðurstöðum og hvetja eindregið til þess að gerð verði almenn úttekt á vistun barna á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og virkt og gott eftirlit með dvöl og aðbúnaði þeirra verði tryggt.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

 

Nálgast má reglugerðardrögin sem umsögnin á við hér.