Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.

 

1. október 2024

 

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

 

Samtökin taka undir það að mikilvægt er að bæta gæði, gangsæi og jafnræði í úthlutun framlaga sjóðsins vegna málaflokksins og sannarlega tryggja það að fatlað fólk fái þjónustu samkvæmt þörfum.

 

Samtökin telja hins vegar fullkomlega ótímabært að taka afstöðu varðandi þeirra reglugerðardraga sem hér eru til umsagnar þar sem ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um SIS matið þ.e.a.s. verklagsreglur og notkun. Í áfangaskýrslu II um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk kemur fram að verulegur fjöldi umsókna fyrir SIS mat falla undir viðmið og fær því ekki afgreiðslu hjá Ráðgjafa- og greiningsstöð.  Einnig er í skoðun fyrirkomulag mats á þjónustuþörf fatlaðs fólks hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Óttast samtökin að fatlað fólk falli milli skips og bryggju og fái mögulega ekki þá lögbundnu þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Reglugerðin mun hafa mikil áhrif á hagsmuni og líf fatlaðs fólks og er því eðlilegt að staldra við vegna skorts á samráði og aðkomu fatlaðs fólks og hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.  

 

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja til virks og náins samstarfs og samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld um þau mikilvægu mál sem hér eru til  umfjöllunar og vísa í því sambandi til til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

 

Virðingarfyllst.

 

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.