Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að stefnu um félags- og tómstundastörf.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Augljóst er að stefna um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna varðar mikilvæga hagsmuni og réttindi fatlaðra barna til þátttöku í samfélagi, í gegnum tómstundastarf, á jafnréttisgrundvelli.

Landssamtökin Þroskahjálp taka undir að með þátttöku í skipulögðu félags- og tómstundastarfi fái börn og ungmenna tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum, þroskast í öruggu umhverfi og um leið styðja við grunngildi þess að búa í lýðræðissamfélagi. Réttur fatlaðs fólks til þátttöku í samfélagi til jafns við aðra er varinn í samningi Semeinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að fylgja. Í 30. grein samningsins er fjallað sérstaklega um þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi og ítrekuð skyldan til þess að tryggja fötluðum börnum, til jafns við önnur börn, aðgang að leikjum og tómstunda- og frístunda- og íþróttastarfi, meðal annars innan skólakerfisins.  [1]

Með vísan til framangreinds vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi á framfæri:

Vísa mætti með skýrari og afdráttarlausari hætti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem leiðarljóss í félags- og tómstundastarfi barna og ungmenna.  Með fullgildingu samningsins eru stjórnvöld skuldbundin til að  framfylgja ákvæðum hans, m.a. með því að tryggja að stefnumótun stjórnvalda taki mið af ákvæðum hans

Í samningnum er mjög mikil áhersla lögð á skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til félagslífs og tómstundastarfs til jafns við aðra og án aðgreiningar. Landssamtökin Þroskahjálp beina þeim tilmælum til stjórnvalda að fjalla sérstaklega um tómstundir án aðgreiningar sem markmið í stefnumótuninni.

Ungmennaráð Þroskahjálpar, sem skipað er einstaklingum með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar á aldrinum 16-24 ára, hefur skilgreint aukið aðgengi að félags- og tómstundastarfi sem forgangsverkefni. Í málefnavinnu ráðsins í janúar 2021 kom fram eindreginn stuðningur við að ráðið beitti sér fyrir því að hvetja til þess að úrval og aðgengi að félagslífi, tómstundum og íþróttum yrði aukið. Landssamtökin Þroskahjálp taka undir þessa kröfu og telja fara vel á því að skoða framboð og raunverulegt aðgengi fatlaðra barna og ungmenna að félags-, íþrótta- og tómstundastarfi samhliða stefnumótun í máleflokknum í heild.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir áhuga og vilja til að koma á fund ráðuneytisins til að gera grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum við innleiðingu stefnunnar. Einnig bendum við á ungmennaráð Þroskahjálpar sem samráðsvettvang við það mikilvæga verkefni.

 

 Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna hjá Landssamtökunum Þroskahjálp.

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér

 

 



[1] 30. gr. Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

5. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til

jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi:

a) til þess að hvetja til og stuðla að þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í algengu

íþróttastarfi á öllum stigum,

b) til þess að tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og

tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og örva, í þessu skyni og með sama hætti og gildir um aðra,

framboð á viðeigandi tilsögn, þjálfun og fé,

c) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og

að ferðamannastöðum,

d) til þess að tryggja fötluðum börnum aðgang, til jafns við önnur börn, að leikjum og tómstunda- og

frístunda- og íþróttastarfi, meðal annars innan skólakerfisins,

e) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu

tómstundastarfs, ferðamennsku og frístunda- og íþróttastarfs.