Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um drög að þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks
Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að forsætisráðherra hyggist leggja fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks og vilja koma eftirfarandi á framfæri við ráðuneytið varðandi þau drög sem hér eru til umsagnar.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks[2] árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans á öllum þeim sviðum sem samningurinn nær til, sbr. 4. gr. hans sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir m.a.
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ... . (Undirstr. Þroskahj.).
Í 5. gr. samningsins er kveðið á um bann við mismunun á grundvelli fötlunar og skyldu ríkja til að tryggja fötluðu fólki „viðeigandi aðlögun“ á öllum sviðum samfélagsins. Greinin hefur yfirskriftina “Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. (Undirstr. Þroskahj.).
Í 2. gr. samningsins er „viðeigandi aðlögun“ skilgreind svo:
„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.
22. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Virðing fyrri einkalífi“. Þar segir:
Engin fötluð manneskja skal, óháð búsetustað eða -formi, sæta ólögmætum afskiptum eða geðþótta afskiptum af einkalífi sínu, fjölskyldu, skriflegum samskiptum eða öðrum samskiptum eða ólögmætum árásum á æru sína og orðstír. Fatlað fólk á rétt á lagalegri vernd gegn slíkum afskiptum eða árásum.
23. gr. samningsins segir m.a.:
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra ...
Í samningnum er lögð sérstök áhersla á að fötluð börn og ungmenni fái tækifæri, réttindi og vernd til jafns við önnur börn og ungmenni og til að tryggja það sé sérstalega litið til aðstæðna þeirra og þarfa m.t.t. fötlunar og samfélagslegra hindrana og viðeigandi aðlögun tryggð.
7. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Fötluð börn“ og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.
2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika. (Undirstr. Þroskahj.).
Með vísan til þess sem að framan er rakið leggja Landssamtökin Þroskahjálp mikla áherslu á að við alla áætlanagerð og stefnumótun sem lýtur að réttindum, tækifærum og vernd hinsegin fólks verði sérstaklega gætt að þeim skyldum sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks gagnvart fötluðu fólki almennt og gagnvart fötluðum börnum og ungmennum sérstaklega. Í því sambandi er nauðsynlegt að mikið tillit sé tekið til aðstæðna þeirra og þarfa og þeirrar miklu hættu sem er á því að þau verði fyrir tvöfaldri mismunun, þ.e. á grundvelli kynhneigðar og einnig á grundvelli fötlunar. Vegna þess er sérstaklega nauðsynlegt að tryggja að þeir einstaklingar sem í hlut eiga njóti örugglega viðeigandi aðlögunar.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs við forsætisráðuneytið í þessum málum sem og öðrum sem varða mikilsverð réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og er svohljóðandi:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst,
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri Þroskahjálparí málefnum barna og ungmenna
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum.
[2] https://www.althingi.is/altext/151/s/0960.html