Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2021-2024.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans á öllum sviðum og tryggja öllu fötluðu fólki öll þau réttindi sem hann kveður á um, án mismununar. 

Miklar og margvíslegar vísbendingar eru um að mikil hætta sé á að fatlað fólk af erlendum uppruna (innflytjendur, hælisleitendur, flóttafólk) fari á mis við þjónustu sem það þarf mjög á að halda og á rétt á samkvæmt lögum og reglum, vegna skorts á viðeigandi leiðbeiningum, upplýsingum og stuðningi. Þá liggja einnig fyrir afar takmarkaðar rannsóknir og tölfræði um fatlað fólk af erlendum uppruna sem gerir það að verkum að hópurinn, sér í lagi fullorðnir fatlaðir innflytjendur, er falinn og lítið vitað um stöðu hans og þarfir.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa allt frá stofnun samtakanna árið 1976 lagt höfuðáherslu á að málefni fatlaðs fólks séu málefni samfélagsins alls. Í ljósi umtalsverðrar fjölgunar fólks af erlendum uppruna (innflytjendur, hælisleitendur og flottafólk) í íslensku samfélagi undanfarin ár hefur Þroskahjálp lagt ríkari áherslu á málefni þessa hóps, ekki síst fatlaðra barna og ungmenna af erlendum uppruna. Hjá samatöknum starfar verkefnisstjóri sem sinnir m.a. sérstaklega málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna, auk þess að sinna verkefnum sem varða fötluð börn og ungmenni sérstaklega.

Á árunum 2018 – 2020 unnu samtökin að því, í samstarfi við ýmsar stofnanir ríkis og sveitarfélaga og ýmis félög, að greina stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna. Sú greining renndi stoðum undir að fyrrnefndar vísbendingar eigi við rök að styðjast. Vegna m.a. menningarmunar og tungumálaerfiðleika eru og innflytjendur og flóttafólk oft ekki upplýst um réttindi sín og stöðu fatlaðs fólks í íslensku samfélagi. Þá hafa samtökin verið í samskiptum við fullorðið fatlað fólk af erlendum uppruna og fjölskyldur þess sem á í miklum erfiðleikum með að fá greiningar, upplýsingar og stuðning við hæfi, m.a. vegna tungumálaerfiðleika og þess að verkferlar og ábyrgð á því að sinna greiningarvinnu, sem er nauðsynlegur undanfari þess í mörgum tilvikum að fólk geti sótt þá þjónustu sem það á rétt á, er afar óljós eða hreinlega ekki til staðar.

Markmið Þroskahjálpar er að stuðla að vitundarvakningu, miðla upplýsingum um réttindi og úrræði og styrkja þjónustu við allt fatlað fólk, þar með talið fólk af erlendum uppruna. Samtökin fengu styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála árið 2018 til þess að gera myndbönd um stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Þrjú slík myndbönd voru gerð og talsett á fimm tungumál. Þá hafa samtökin unnið að því undanfarna mánuði að vinna þrjú önnur myndbönd sem fjalla um réttindi fullorðins, fatlaðs fólks. Myndböndin eru talsett á sex tungumál auk íslensku. Einnig hafa samtökin unnið efni á textaformi um lög, reglugerðir, mannréttindi og þjónustu við fatlað fólk og látið þýða á sex tungumál. Hverjum texta fylgir einnig auðlesin útgáfa. Þetta efni er til og hefur verið sent Fjölmenningarsetri og birt á vef Þroskahjálpar. Þessi verkefni voru unnin í samstarfi við félagsmálaráðuneytið.

Í ljósi þess sem að ofan greinir vilja Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir ánægju með að verkefni tengd fötluðum börnum með innflytjendabakgrunn hafa nú verið sett inn í framkvæmdaáætlun (aðgerð B3), en benda jafnframt fram á að það verkefni sem útlistað er hefur að verulegu leyti þegar verið unnið af Landssamtökunum Þroskahjálp, eins og fjallað er um hér að ofan. Mikilvægt er að það efni sem liggur fyrir nýtist inn í áætlunina og sé miðlað til þeirra sem á þurfa að halda. Þá er mikilvægt að þetta efni verði hluti af verkfærakistu fagaðila sem sinna félagsþjónustu og annarri þjónustu við fólk af erlendum uppruna, sem kveðið er á um í aðgerð E.4 í áætluninni.

Þá vilja samtökin beina þeim tilmælum til þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmdaáætlunni að gert verði ráð fyrir öflun sérstakrar tölfræði um fatlað fólk af erlendum uppruna á öllum aldri til að hafa yfirsýn yfir fjölda og stöðu viðkomandi einstaklinga. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að finna skýrt ákvæði um að aðildarríkjum beri að safna slíkri tölfræði:

31. gr.

Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.

  1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. Vinnuferli við að safna og viðhalda þessum upplýsingum skulu:

 

a) vera í samræmi við lögmæltar öryggisráðstafanir, þar á meðal löggjöf um gagnavernd, til

þess að tryggja trúnað og virðingu fyrir einkalífi fatlaðs fólks;

 

b) vera í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið um vernd mannréttinda og grundvallarfrelsis og siðferðileg viðmið við söfnun og notkun tölfræðilegra upplýsinga.

 

  1. Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og

nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og takast á við þær hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.

 

Landssamtökin Þroskahjálp leggja til að við móttöku innflytjenda og flóttafólks verði kannað hvort viðkomandi búi við einhvers konar fötlun svo að strax megi gera ráðstafanir til þess að fatlað fólk af erlendum uppruna njóti þeirrar verndar og þess stuðnings sem það á rétt á og fái strax réttar upplýsingar um málefni fatlaðs fólks á Íslandi og þá þjónustu sem það á rétt á. Þessar upplýsinga mætti t.d. afla í fyrsta viðtali umsækjenda um alþjóðlega vernd og einnig í fyrsta viðtali við félagsþjónustu.

Mikilvægt er að í því upplýsingaefni sem útbúið er til að greiða fyrir aðgengi fólks af erlendum uppruna að upplýsingum sé að finna efni á auðlesnu máli sem eykur líkurnar til þess að einstaklingar með þroskahömlun og skyldar raskanir, geti nýtt sér þær.

Að lokum benda Landssamtökin Þroskahjálp á samráðsskylduna sem af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leiðir. Í 3. mgr. 4. gr. samningsins sem fjallar um almennar skuldbindingar ríkja sem fullgilt hafa samninginn segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Landssamtökin Þroskahjálp, sem hafa aflað sér verulegrar reynslu á þessu sviði, lýsa miklum vilja og áhuga til að vera stjórnvöldum og öðrum sem hlut eiga að máli til samstarfs samráðs um þá þætti sem um er fjallað í þessari umsögn.

Að lokum vilja samtökin ítreka að mjög mikil þörf er á því að skýra og skilgreina verkferla og ábyrgð á því að veita þjónustu fötluðu fólki af erlendum uppruna sem fellur milli kerfa ef svo má segja, s.s.  fötluðu fólki sem náð hefur 18 ára aldri en hefur ekki fengið formlega greiningu.

 

Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnissjóri í málefnum fatlaðra barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna

 Nálgast má þingsályktun sem umsögnin á við hér