[2] 24. gr. samningsins hefur yfirskriftina Menntun og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og þar sem allir hafa jöfn tækifæri skulu aðildarríkin koma á menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og námi alla ævi sem leiðir til þess:
a) að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og til þess að virðing fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni vaxi,
b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,
c) að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.
2. Til þess að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:
a) að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi vegna fötlunar,
b) að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að endurgjaldslausri grunn- og framhalds-skólamenntun án aðgreiningar, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, í þeim samfélögum þar sem það býr,
c) að viðeigandi aðlögun sé veitt viðkomandi einstaklingi til þess að þörfum hans sé mætt,
d) að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess,
e) að skilvirkur, einstaklingsmiðaður stuðningur standi til boða í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagslegan þroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku allra.
3. Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem þjóð¬félagsþegnar. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:
a) auðvelda fólki að læra punktaletur, óhefðbundna ritun, auknar og óhefðbundnar samskiptaleiðir, -máta og -form og færni í áttun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjaráðgjöf,
b) auðvelda fólki að læra táknmál og stuðla að sjálfsmynd heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks með tilliti til tungumáls,
c) tryggja að menntun einstaklinga, og þá sérstaklega barna, sem eru blindir eða sjónskertir, heyrnarlausir eða heyrnarskertir eða fólks með samþætta sjón- og heyrnar¬skerðingu fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.
4. Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, einnig fatlaða kennara sem eru sérhæfðir í táknmáli og/eða punktaletri, og að þjálfa sérfræðinga og starfsfólk sem starfa á öllum sviðum menntakerfisins. Fyrrnefnd þjálfun skal samlöguð vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.
5. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk geti hafið almennt nám á háskólastigi, starfs¬þjálfun og notið fullorðinsfræðslu og náms alla ævi án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.