Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda
20. september 2024
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa verulega þýðingu m.t.t. þess sem hér er til umsagnar og í formálsorðum hans segir:
Ríki, sem eiga aðild að samningi þessum,sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir fjölþættri eða aukinni mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernis eða félagslegs uppruna eða frumbyggjauppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu.
Samtökin telja nauðsynlegt að fjallað verði meira í stefnunni og framkvæmdaáætluninni um hvernig á að haga stuðningi og þjónustu við fólk, sem býr við tvöfalda eða jafnvel margfalda mismunun / jaðarsetningu, t.a.m. vegna fötlunar þess sjálfs eða aðstandenda þess. Þar þarf ekki síður að mennta og þjálfa starfsfólk, sem hefur það hlutverk að veita þjónustu og stuðning en þá sem nýta þjónustuna.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við stjórnvöld við þau afar mikilvægu viðfangsefni og mál, sem um hér eru til umfjöllunar og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Katarzyna Kubiś, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér