Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028

 

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Jafnframt er ævinlega horft til heimsmarkmiða SÞ  í verkefnum samtakanna.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuð þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum greinum og ákvæðum hans og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja það, sbr. 4. gr. samningsins. Ríkisstjórnin vinnur nú að innleiðingu samningsins samkvæmt sérstakri landsáætlun þar um og hyggst lögfesta samninginn á kjörtímabilinu.

32. gr. samningsins hefur yfirskriftina Alþjóðlegt samstarf og hljóðar svo:


1.      Aðildarríkin viðurkenna mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og eflingu þess til stuðnings innlendum aðgerðum til þess að tilgangur og markmið samnings þessa megi verði að veruleika og munu gera viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir hvað það varðar milli og meðal ríkja og, eftir því sem við á, í samvinnu við hlutaðeigandi alþjóða- og svæðisstofnanir og borgaralegt samfélag, einkum samtök fatlaðs fólks. Slíkar ráðstafanir gætu meðal annars tekið til þess:
         a)          að tryggja að alþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðlegar þróunaráætlanir, nái til fatlaðs fólks og sé því aðgengilegt,
         b)          að greiða fyrir og styðja uppbyggingu þekkingar og getu, þar á meðal með því að skiptast á og miðla upplýsingum, reynslu, þjálfunaráætlunum og bestu starfsvenjum,
         c)          að greiða fyrir samvinnu á sviði rannsókna og auðvelda aðgengi að vísinda- og tækniþekkingu,
         d)          að láta í té, eftir því sem við á, tækni- og efnahagsaðstoð, meðal annars með því að auðvelda aðgang að og miðla aðgengilegri og styðjandi tækni og með yfirfærslu á tækni.
     4.      Ákvæði þessarar greinar hafa engin áhrif á þá skyldu sérhvers aðildarríkis að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.

 

 

Í 11. grein er fjallað sérstaklega um aðstæður sem skapa hættu og neyðaraðstoð sem kallar á mannúðaraðstoð og þar segir:

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.

Í stefnudrögum þeim sem hér err util umsagnar kemur fram að útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði verði yfirmarkmið í þróunarsamvinnu 2024 – 2028. Þroskahjálpar fagnar þessum markmiðum en saknar þess að sérstaklega sé fjallað um fatlað fólk, sem er berskjaldaðist hópurinn í öllum samfélögum og í gríðarlegri þörf fyrir stuðning. Fatlaðar konur og fötluð börn eru sérstaklega berskjölduð, jaðarsett, valdlaus og fátæk.   Mjög mikilvægt er að flétta áherslur um hvernig skuli mæta sérstaklega þörfum fatlaðs fólks almennt og fatlaðra barna og kvenna sérstaklega inn í alþjóðlega þróunarsamvinnu til að uppfylla skyldur sem íslenskra ríkið hefur samkvæmt samningnum, sbr. m.a. 32. og 11. Greinar hans.

Í stefnudrögunum er fjallað um fjögur eftirfarandi málefnasvið sem stefnt er á að leggja sérstaka áherslu á. Ljóst er að ekki mun nást fullnægjandi árangur á þessum sviðum ef ekki er sérstaklega hugað að þörfum, réttindum og hagsmunum fatlaðs fólks, svo sem skylt er að gera eins og útlistað er hér að ofan.

Hér á eftir fara ábendingar / athugasemdir Þroskahjálpar við hvert málefnasvið en athygli er vakin á því að hér engan veginn um tæmandi talningu atriða að ræða og þau atriði sem tiltekin eru hér á eftir eru sett fram sem dæmi um hvers vegna það er nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um málefni fatlaðs fólks í stefnunni.:

 

 

  1. Mannréttindi og jafnrétti kynjanna.

Hér er mikilvægt að beina sjónum sérstaklega að fötluðum konum, sem rannsóknir sýna m.a. að eru mun  útsettari fyrir hvers kyns ofbeldi og misbeitingu en konur sem ekki eru fatlaðar, og konum sem eru mæður fatlaðra barna. Í að  minnsta kosti í tveimur af þeim löndum sem Ísland á  tvíhliða þróunarsamvinnu við í og Þroskahjálp þekkir til í er það undantekningarlítið á hendi móður að annast fötluð börn sín og oft án aðstoðar föður sem oft yfirgefa  fötluð börn sín og fjölskyldur sínar.  Mjög mikilvægt er að valdefla fatlaðar konur og stúlkur til jafns við aðrar og án þess að beina sjónum að fötluðum konum og stúlkum verður kynbundið- og kynferðislegt ofbeldi ekki upprætt.

  1. Mannauður og grunnstoðir samfélaga.

Afar mikilvægt er að tryggja aðgengi fatlaðra barna að menntun og öðrum tækifærum og tryggja að komið sé til móts við þarfir fatlaðra barna í skólastarfi og öðrum verkefnum sem miða að því að bæta aðstæður barna almennt. Reynslan sýnir að bættar aðstæður barna almennt skila sér alls ekki endilega í betri stöðu eða fleiri tækifærum fyrir fötluð börn.  Hér geta viðhorf og hefðir haft áhrif en einnig skortur á aðlögðuðu umhverfi sem fötluð börn geta dvalist í.

 

  1. Loftslagsmál og náttúruauðlindir.

Allar rannsóknir og reynslan sýnir að hagsmunir, réttindi og þarfir fatlaðs fólks eru iðulega ekki hafðar til hliðsjónar þegar gerðar eru hvers kyns neyðar-, mannúðar- eða þróunaráætlanir. Þetta á jafnt við um mannúðarstarf á átakasvæðum, eins og t.a.m. reynslan frá Úkraínu sýnir og sannar, viðbrögð við heimsfaraldri Covid-19 (eins og reynslan alls staðar að úr heiminum, þar á meðal Íslandi, sýnir okkur) og neyðaráætlanir vegna loftlagsmála. Fáir hópar eru þó berskjaldaðari gagnvart þessum ógnunum  þar sem fatlað fólk á mun erfiðara um vik að aðlagast breytingum eða forðast hættulegar aðstæður.

 

  1. Mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar

 Fatlað fólk á flótta er gríðarlega berskjaldaður hópur sem oft gleymist í aðgerðum sem miða að aðstoð og stuðningi við flóttafólk almennt. Vegna fötlunar sinnar á þessi hópur iðulega mun erfiðara með að sækja sér þá aðstoð sem er í boði eða getur ekki nýtt sér hana þar sem hún er sniðin að þörfum ófatlaðs fólks. Því miður er algengt að fatlað fólk sé skilið eftir þegar aðrir þurfa að flýja eða fara á aðrar slóðir vegna afleiðinga loflagsþróuanr  – eða annarrar óganr . Mjög mikilvægt er að huga vandlega að þessu í öllu starfi sem miðar að stuðningi við flóttafólk, aðstoð við ríki til að efla viðnámsþrótt og önnur verkefni  sem falla hér undir.

 

Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarin tvö ár fengið styrk frá utanríkisráðuneytinu til þess að sinna verkefnum í þágu fatlaðra barna í Mangochi í Malaví. Þá hafa samtökin  tekið þátt í umfangsmikilli vinnu við innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem leidd er af forsætis – og félags- og vinnumarkaðsráðherrum, þar sem m.a. var fjallað um þær greinar samningsins sem þegar hefur verið vísað til og hvernig mögulegt sé að uppfylla skyldur sem af þeim leiða . Þá hefur Þroskahjálp öðlast mikla innsýn í þær alvarlegu afleiðingar sem það hafði fyrir fatlað fólk á Íslandi að ekki var gert ráð fyrir þörfum þess í  neyðaráætlunum sem virkjaðar voru vegna Covid-19 faraldursins. Að lokum viljum við nefna að eftir innrás Rússlands í Úkraínu höfum við verið í miklu samband við systursamtök í Evrópu um aðstoð við fatlað fólk í landinu og höfum í gegnum það samstarf öðlast dýrmæta innsýn í hvernig best má bæta neyðaráætlanir þannig að þörfum allra sé mætt.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir miklum áhuga og vilja til þess að eiga samstarf og samráð við stjórnvöld um þau mikilvægu verkefni sem um er fjallað í þessari umsögn og þeirri stefnui sem hér er til umsagnar  

 

Virðingarfyllst.

Anna Lára Steindal,

verkefnisstjóri hjá Landssamtökunum Þroskahjálp.

 

Nálgast má málið sem umsögnin á við hér.