Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um drög að upplýsingastefnu stjórnvalda
Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri við forsætisráðuneytið vegna þess máls sem hér er til umfjöllunar.
“Auðskilið mál” er texti eða upplýsingar þar sem efnið er greint og sett upp með þeim hætti að auðveldara er fyrir fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir að lesa og skilja hann. Textinn einblínir á aðalatriðin og uppsetning og framsetning er höfð mjög skýr og aðgengileg.
Í 21. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks[2], sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja, segir:
Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hvers kyns samskiptamiðlum að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, þar á meðal með því:
a) að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem tekur mið af mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar,
b) að viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, punktaleturs, aukinna og óhefðbundinna samskipta og allra annarra aðgengilegra samskiptaleiða, -máta og -forma sem fatlað fólk kýs að nota í opinberum samskiptum,
c) að brýna fyrir einkaaðilum sem bjóða almenningi þjónustu, þar á meðal gegnum netið, að veita upplýsingar og þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk,
d) að hvetja fjölmiðla, þ.m.t. upplýsingaveitur á netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki.
Auðskilið mál er mjög mikilvæg aðferð til valdeflingar. Það stuðlar mjög mikið að sjálfstæði fólks, tækifærum þess til virkrar þátttöku og að fatlað fólk geti nýtt gerhæfi sitt og er nauðsynlegur þáttur til að uppfylla margar þær skyldur sem á stjórnvöldum hvíla samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Má þar meðal annars nefna að ríki, sem fullgilt hafa samninginn, viðurkenna mikilvægi sjálfræðis og sjálfstæðis fyrir fatlað fólk, þ.m.t. frelsis til að taka eigin ákvarðanir. Til þess að fólk geti tekið eigin ákvarðanir er augljóslega mjög mikilvægt að það hafi aðgengi að upplýsingum um réttindi sín, stöðu og aðra þætti sem geta haft áhrif á það hvernig við öllum tökum ákvarðanir og högum lífi okkar í stóru og smáu.
Í þessu sambandi skal bent á að auðskilið mál er nauðsynlegt fyrir ýmsa aðra hópa en fólk með þroskahömlun og/eða skyldar raskanir, s.s. margt fólk af erlendum uppruna.
Þroskahjálp rekur „Miðstöð um auðlesið mál“ með styrk frá félags- og vinnumarkaðs-ráðuneytinu (sjá hlekk að neðan).
https://www.audlesid.is/is/um-vefinn
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa áhuga og vilja til samráðs og samstarfs við forsætisráðuneytið varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar og vísar í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina “Almennar skuldbindingar”. Þar segir:
“Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”
Virðingarfyllst.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Þroskahjálp
Nálgast má mál sem umsögnin á við hér
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og heimsmarkmiðum SÞ.
[2] Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur.” Sjá einnig frétt á heimasíðu stjórnarráðsins 1. júlí 2022 um landsáætlun um innleiðingu á samningnum: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/07/01/Landsaaetlun-um-innleidingu-a-samningi-STh-um-rettindi-fatlads-folks-/