Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um félagsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, 113. mál.
29. nóvember 2022
Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og lýsa eindregnum stuðningi við hana.
Áætlun til að tryggja megi nemendum í grunn- og framhaldsskólum aðgang að þjónustu og ráðgjöf félagsráðgjafa mun auka þverfaglega samvinnu innan skólanna þannig að skólar geti sinnt betur hlutverki sínu, almennt og ekki síst með tilliti til aukinnar áherslu á framkvæmd farsældarlaganna, sem eiga að bæta aðgengi nemenda að sérfræðiþekkingu er tengist félagslegum áskorunum almennt og þ.m.t. til að tryggja faglega nálgun á félagsþroska nemenda.
Þörf er á að beita markvisst snemmtækum og sívirkum úrræðum og tryggja viðeigandi og fullnægjandi stuðning við nemendur með hegðunar-, félags og/eða tilfinningavanda og til að auka samráð og ráðgjöf við fjölskyldur, kennara og annað starfsfólk skólanna.
Bæta þarf til muna stöðugildi kennara og annarra fagstétta innan skólakerfisins og auka við þverfaglega samvinnu ýmissa fagaðila að málefnum nemenda, s.s. þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, sálfræðinga, félagsráðgjafa, námsráðgjafa og kennara.
Allt framangreint er augljóslega nauðsynlegur þáttur í að skóli án aðgreiningar geti skilað þeim miklu og margvíslegu auknu tækifærum og ávinningi fyrir einstaka nemendur og alla nemendur og samfélagið allt, sem sem honum er ætlað að gera og á að gera og íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja með fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi samninginn og þá hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að gerð skuli landsáætlun um innleiðingu samningsins.
24. gr. samningsins hefur yfirskriftina Menntun og þar segir m.a.:
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum …
2. Til að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja: …
c) að viðeigandi aðlögun sé veitt í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklings,
d) að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess,
e) að árangursríkur, einstaklingsmiðaður stuðningur sé veittur í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku án aðgreiningar. …
4. Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, þar á meðal fatlaða kennara með sérþekkingu á táknmáli og/eða punktaletri, og þjálfa fagfólk og starfsfólk sem starfar á öllum sviðum menntakerfisins. Slík þjálfun skal fela í sér vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna
Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér.