Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum (fyrirframgefin ákvarðanataka), 282. mál.

 

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna[1] um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim, þ.m.t. með  nauðsynlegri lagasetningu í því skyni, sbr. 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“.

12. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Réttarstaða til jafns við aðra“. Þar er lögð sú skylda á ríki að gera það sem í þeirra valdi stendur til að virða og verja vilja og óskir fatlaðs fólks og rétt þess til að taka ákvarðanir og til að halda lagalegu hæfi sínu óskertu og sjá fyrir miklum og margbreytilegum stuðningi við fatlað fólk til að tryggja það.

12. grein hljóðar samningsins hljóðar svo:   

     1.      Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem per­sónur að lögum. 
     2.      Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins. 
     3.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt. 
     4.      Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða nýtingu gerhæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríkar verndarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Þessar verndarráðstafanir skulu tryggja að með ráðstöfunum, sem varða nýtingu gerhæfis, séu réttindi, vilji og séróskir viðkomandi einstaklings virt, slíkar ráðstafanir leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg áhrif, þær séu til samræmis við og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í sem skemmstan tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru, sjálfstæðu og hlutlausu yfirvaldi eða stofnun á sviði dómsmála. Verndarráðstafanirnar skulu vera í samræmi við þau áhrif sem fyrrnefndar ráðstafanir hafa á réttindi og hagsmuni viðkom­andi einstaklings. 
     5.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæð­um þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, að stýra eigin fjármálum og hafa jafnan aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar lánafyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum eftir geðþótta. 
(undirstr. Þroskahj.).

Eftirlitsnefnd með framkvæmd samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur sent frá sér almennar athugasemdir (e. General Comment) um 12. gr. samningsins þar sem greinin er skýrð og þær skyldur sem af henni leiða fyrir ríki sem hafa fullgilt samninginn. Þar segir m.a.: 

For many persons with disabilities, the ability to plan in advance is an important form of support, whereby they can state their will and preferences which should be followed at a time when they may not be in a position to communicate their wishes to others. All persons with disabilities have the right to engage in advance planning and should be given the opportunity to do so on an equal basis with others. States parties can provide various forms of advance planning mechanisms to accommodate various preferences, but all the options should be non-discriminatory. Support should be provided to a person, where desired, to complete an advance planning process. The point at which an advance directive enters into force (and ceases to have effect) should be decided by the person and included in the text of the directive; it should not be based on an assessment that the person lacks mental capacity.[2]

Landssamtökin Þroskahjálpar taka heilshugar undir þessi orð eftirlitsnefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið hvetja samtökin Alþingi til að samþykkja frumvarpið og óska jafnframt eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að fylgja þessari umsögn sinni eftir og gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum


Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar    

Frumvarpið sem umsögnin á við má lesa hér