Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð), 456. mál

Landssamtökin þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Samtökin fagna þeirri framlengingu sem kveðið er á um í frumvarpinu en vilja sérstaklega árétta mikilvægi þess að við undirbúning reglusetningar af þessu tagi verði vandað til verka sem og samráðs við fatlað fólk, eins og mælt er fyrir um að skuli gert í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þessu sambandi skal sérstaklega bent á að óforsvaranlegt er að fatlað fólk eigi ekki fulltrúa í nefnd samkvæmt lögunum eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar:

 „Þá kemur fram í fyrrnefndri greinargerð að gert sé ráð fyrir að samhliða því að frumvarpið verði að lögum skipi ráðherra tímabundna nefnd undir forystu ráðuneytisins með fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Vinnueftirliti ríkisins.  

Þá árétta samtökin mikilvægi þess að koma þeim málum sem um er fjallað í frumvarpinu  sem fyrst í varanlegri tilhögun því að óásættanlegt er að sama ákvæðið sé endurnýjað og breytt ár eftir ár, þar sem ekki fæst niðurstaða sem NPA-notendur og aðstoðarfólk þeirra geta fellt sig við.

 Landssamtökin þroskahjálp óska eftir að fá fund með velferðarnefnd til að gera betri grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum varðandi frumvarpið og tengd mál.

 

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

: Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.