Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (aldursviðbót), 138. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (aldursviðbót), 138. mál                                    

   23. október 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri í sambandi við það.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

28. gr. samningsins hefur yfirskriftina Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd. Þar segir í 1. mgr.:

Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar. 

 

Aldurstengdri örorkuuppbót er m.a. ætlað að koma til móts við þann hóp sem hefur oft óverulegar lífeyris- og fjármagnstekjur. Þá er eignastaða þess hóps oft lakari en þeirra sem verða fyrir skerðingu eða veikjast sÍðar á lífsleiðinni. Það á við hjá fólki sem svo háttar til um og hefur verið á örorkubótum og nær 67 ára aldri.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið og  þeirra augljósu og mjög veigamiklu sanngirnisraka sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu hvetja Landssamtökin þroskahjálp velferðarnefnd eindregið til að afgreiða þetta mikla og augljósa réttlætismál án tafar úr nefndinni og skorar á Alþingi að samþykkja frumvarpið á þessu þingi til að það geti orðið sem fyrst að lögum.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér